Þeir Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinsson náðu toppi Everest 24. maí síðastliðinn en þeir klifu hann í söfnunarátaki til styrktar Umhyggju sem ber nafnið Með Umhyggju á Everest. Þeir lentu í miklum hrakningum á leið á tindinn.
Árný Ingvarsdóttir framkvæmdastjóri Umhyggju-félags langveikra barna segir þetta mikið afrek.
„Þegar þeir voru komnir upp í búðir 2 þurftu þeir að vera þar í fjóra daga vegna veðurs í stað tveggja, sem reynir töluvert á líkamann. Þar voru þeir farnir að finna fyrir Covid-19 einkennum en héldu þau væru vegna aðstæðna. Þegar þeir eru í 3 búðum var aftakaveður og þá byrja þeir að finna verulega fyrir einkennum. Þrátt fyrir miklar hrakningar komust þeir á toppinn,“ segir Árný.

Hún segir að á niðurleið hafi þeir aftur farið að finna fyrir miklum Covid-19 einkennum og fengu það svo staðfest í grunnbúðum í gær.
„Þeir komust svo við illan leik niður í grunnbúðir. Þeir sáu að það var ekki hægt að sækja þá með þyrlu vegna veðurs þannig að þeir urðu bara að koma sér sjálfir niður þrátt fyrir að vera talsvert veikir,“ segir hún.
Árný segir þá félaga fá aðhlynningu í grunnbúðum og bíði þar eftir sjúkraflugi til Kathmandu á morgun eða hinn.
„Þeir eru náttúrulega lasnir en þeir bera sig vel. Þeir halda svo áfram í einangrun í Kathmandu,“ segir hún.
Aðspurð hvort hún viti hvort þeir séu mögulega fyrstu menn í heiminum til að klífa Everest með Covid-19 svarar Árný:
„Ég myndi ætla það. Þeir segja að það sem hafi gefið þeim kraft á leið upp sé þessi málstaður en þeir eru náttúrulega að ganga þessa leið fyrir langveik börn. Það gaf þeim aukakraft að hugsa til þess hvað krakkar sem glíma við langvinn veikindi þurfa að þola.“
Söfnun þeirra félaga fyrir Umhyggju lýkur þann 11. júní