Körfubolti

Handtekinn fyrir að kasta flösku í Kyrie Irving: „Við erum ekki dýr og erum ekki í sirkus“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kyrie Irving skoraði 39 stig og tók ellefu fráköst gegn Boston Celtics.
Kyrie Irving skoraði 39 stig og tók ellefu fráköst gegn Boston Celtics. getty/Maddie Malhotra

Stuðningsmaður Boston Celtics var handtekinn eftir að hafa kastað vatnsflösku í átt að Kyrie Irving eftir leik gegn Brooklyn Nets í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í nótt. Brooklyn vann leikinn, 126-141.

Stuðningsmaðurinn kastaði flöskunni í átt að Irving þegar hann gekk af velli. Sem betur fer hitti hann ekki Irving með flöskunni. Hann var í kjölfarið handtekinn og á von á lífstíðarbanni frá TD Garden, heimavelli Boston.

Þetta er ekki fyrsta dæmið um slæma hegðun stuðningsmanna í úrslitakeppni NBA. Stuðningsmaður Philadelphia 76ers sturtaði poppkorni yfir Russell Westbrook, leikmann Washington Wizards, hrækt var á Trae Young, leikmann Atlanta Hawks, og þrír stuðningsmenn Utah Jazz voru fjarlægðir eftir að hafa hrópað ókvæðisorð að fjölskyldu Jas Morant, leikmanns Memphis Grizzlies.

Irving, sem skoraði 39 stig og tók ellefu fráköst gegn sínum gömlu félögum í nótt, er kominn með nóg af hegðun stuðningsmannanna.

„Þetta hefur verið svona lengi, með undirliggjandi rasisma og koma fram við fólk eins og þetta sé dýragarður,“ sagði Irving sem lék með Boston á árunum 2017-19.

Kevin Durant, sem skoraði 42 stig, tók í sama streng og Irving varðandi hegðun stuðningsmannnanna. 

„Við erum ekki dýr og erum ekki í sirkus. Að fara á leik snýst ekki bara um þig sem stuðningsmann. Þú verður að bera virðingu fyrir leiknum,“ sagði Durant.

Brooklyn er 3-1 yfir í einvíginu gegn Boston og vantar aðeins einn sigur í viðbót til að komast í undanúrslit Austurdeildarinnar.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×