Körfubolti

Áhorfendur í NBA halda áfram að haga sér eins og kjánar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dwight Howard, miðherji Philadelphia 76ers, horfir á áhorfandann sem gerði sér ferð inn á völlinn í leiknum gegn Washington Wizards í Capitol One höllinni í nótt.
Dwight Howard, miðherji Philadelphia 76ers, horfir á áhorfandann sem gerði sér ferð inn á völlinn í leiknum gegn Washington Wizards í Capitol One höllinni í nótt. getty/Tim Nwachukwu

Áhorfandi hljóp inn á völlinn, stökk upp og snerti spjaldið í leik Washington Wizards og Philadelphia 76ers í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt.

Þegar þrjár mínútur voru eftir af 3. leikhluta hljóp áhorfandi niður nokkrar sætaraðir í Capitol One höllinni í Washington, inn á völlinn og snerti spjaldið þegar heimamenn voru að fara í sókn.

Einn dómaranna tók eftir áhorfandanum og stöðvaði leikinn. Öryggisverðir í höllinni tækluðu svo manninn og hann var í kjölfarið handtekinn.

Þetta er enn eitt dæmið um fáránlega hegðun áhorfenda í úrslitakeppni NBA undanfarna daga. 

Í gær var stuðningsmaður Boston Celtics handtekinn fyrir að kasta flösku í átt að Kyrie Irving, leikmanni Brooklyn Nets.

Þá sturtaði stuðningsmaður Philadelphia poppkorni yfir Russell Westbrook, leikmann Washington, hrækt var á Trae Young, leikmann Atlanta Hawks, og stuðningsmenn Utah Jazz hrópuðu ókvæðisorð og beittu fjölskyldu Jas Morant hjá Memphis Grizzlies kynþáttaníði.

„Þetta er ekki leikur eða eitthvað rugl. Þú getur ekki bara gert það sem þú vilt og hlaupið um. Þetta er vinnan okkar og við tökum henni mjög alvarlega,“ sagði Westbrook eftir leikinn í nótt sem Washington vann, 122-114.

Áhorfendinn sem fann hjá sér þessa knýjandi þörf til að hlaupa inn á völlinn verður væntanlega kærður fyrir framkomu sína og settur í bann frá heimaleikjum Washington í framtíðinni.

Staðan í einvígi Washington og Philadelphia er 3-1, Sixers í vil. Næsti leikur liðanna er í Philadelphia.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×