„Við erum að búa okkur undir það að ferðafólki frá útlöndum fjölgi og við erum að vinna markvisst að því að laga stígana og hafa þetta sem þægilegast og öruggast,“ segir Otti Rafn Sigmarsson, meðlimur í björgunarsveitinni Þorbirni, í samtali við fréttastofu.
Hann hvetur alla til að vera vel búnir þegar þeir koma að gosstöðvunum. Úrkoma síðustu daga hafi bleytt vel upp í jarðveginum á svæðinu og hætta sé á að fólk renni til og slasi sig.

Stórkostlegar myndir
„Það er gott að vera með grímur með sér en það er langmikilvægast að fólk sé í góðum skóbúnaði. Það virðist aðalmálið, að fólk sé vel græjað fyrir rigninguna. Það hefur verið mjög blautt hérna síðustu daga, fólk illa skóað og einhverjir hafa runnið til og snúið eða jafnvel brotið ökkla,“ segir Otti.
Ljósmyndarar Vísis, Vilhelm Gunnarsson og Ragnar Axelsson, voru á svæðinu um helgina og náðu stórkostlegum myndum af hraunstreyminu niður í Nátthaga og fleiru.



