Innlent

Stórfelldur lyklaþjófnaður í Grafarvogslaug

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Laugin er ekki tryggð fyrir þjófnaðinum.
Laugin er ekki tryggð fyrir þjófnaðinum. Mynd/Reykjavíkurborg

Óprúttnir aðilar hafa á aðeins þremur vikum stolið um 60 lyklum úr búningsklefa karla í Grafarvogslaug. Tjón laugarinnar vegna þessa nemur um hálfri milljón króna en það kostar í kringum 9 þúsund krónur að endurnýja hvern lykil og skrá.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.

„Það eru einhverjir sniðugir að gera okkur grikk og það er mjög erfitt að fylgjast með þessu,“ segir Hrafn Jörgensson, forstöðumaður Grafarvogslaugar.

Hann segir að reynt sé að fylgjast með því á hvaða tíma lyklarnir hverfa og þannig hafi starfsmenn ákveðnar vísbendingar um hvaða hópur sé ábyrgur en svo virðist sem um skemmdarverk margra einstaklinga sé að ræða.

Að sögn Hrafns hefur það gerst í öðrum laugum að lyklaþjófnaður aukist yfir ákveðið tímabil en hann sé þó almennt stundaður af þeim sem vilja eigna sér ákveðna klefa. Lyklanir hafi ekkert notagildi utan lauganna.

Rætt hefur verið að taka upp aðrar lausnir, á borð við talnalása, en ekki verið ráðist í það vegna áhyggja af viðbrögðum eldri gesta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×