Bára kynnir þetta sem örsögu vikunnar, að kona hafi farið í apótek og hafi tekið númer.
„Sjö að bíða. Bubbi labbar inn. Beint að afgreiðsluborðinu. Daman spyr: Ertu með númer? Svar: Nei. Biður um vöru. Fær hana. Labbar út. Hinir með númer standa og brosa.“
Bubbi enginn prins, hann er kóngur
Ýmsir velta þessu fyrir sér og vilja meina að slík framkoma eigi nú einhvern veginn betur við þegar Bó eigi í hlut. Að hann hafi ætlað sér slíkt en verið vinsamlegast sagt að hætta þessari frekju og fara í röðina. Annar segist hafa orðið vitni að því þegar Bó vildi njóta sérréttinda í Bláa lóninu. „Röðin var útá bílastæði(tímabilið áður en þurfti að bóka). Hann var ekki kátur. Aðrir gestir voru það.“
Örsaga vikunnar: Kona fer í apótek. Tekur númer. Sjö að bíða. Bubbi labbar inn. Beint að afgreiðsluborðinu. Daman spyr: Ertu með númer? Svar: Nei. Biður um vöru. Fær hana. Labbar út. Hinir með númer standa og brosa.
— Bára Huld Beck (@barahuldbeck) June 9, 2021
Guðrún Jóna leggur orð í belg, segist reyndar ekki eiga orð en nefnir að hún hafi beðið í röð ásamt sjálfum danska prinsinum. „Hann kom inn, tók númer. Beið. Það er auðvelt að ást og umhyggja allan daginn ef reglur samfélagsins ná bara ekki til þín - þú þarft ekki að bíða í röð eins og pöppúlinn.“
En Árni Páll Árnason, fyrrverandi ráðherra, bendir á sem rétt er að Bubbi sé enginn prins. „Hann er kóngur.“
Löngu hættur á nikótíntyggjóinu
Vísir bar þetta atvik sem lýst er undir Bubba og hann taldi ekki ólíklegt að nákvæmlega svona hafi þetta verið.
„Gæti alveg verið. Ég á ADHD-degi. Ég get verið alveg svakalega utan við mig. Þetta rímar alveg við mig.“
En, hvað varstu að sækja í apótekið? Nikótíntyggjó, geri ég ráð fyrir?
„Það er nú það? Nei, ég er löngu hættur því. En, já, ég held að þetta sé satt.“
Og ekki er hægt að áfellast Bubba fyrir að vera annars hugar. Hann er nú að undirbúa stórtónleika sem haldnir verða í Hörpu 16. júní. „Klikkað band,“ segir Bubbi. Og svo er að sjá á þessu myndbroti sem er frá æfingu nú fyrr í dag.