Körfubolti

Young stórkostlegur þegar Haukarnir tóku forystuna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Trae Young hefur átt hvern stórleikinn á fætur öðrum í úrslitakeppninni.
Trae Young hefur átt hvern stórleikinn á fætur öðrum í úrslitakeppninni. getty/Patrick McDermott

Trae Young hefur farið á kostum í úrslitakeppni NBA og átti enn einn stórleikinn þegar Atlanta Hawks sigraði Milwaukee Bucks, 113-116, í fyrsta leik liðanna í úrslitum Austurdeildarinnar í nótt.

Young skoraði 48 stig, tók sjö fráköst og gaf ellefu stoðsendingar. Hann hitti úr helmingi skota sinna utan af velli og nýtti tíu af tólf vítaskotum sínum.

John Collins skoraði 23 stig og tók fimmtán fráköst og Clint Capela var með tólf stig og nítján fráköst. Sá síðarnefndi fór langt með að tryggja Atlanta sigurinn þegar hann skoraði eftir sóknarfrákast þegar tæp hálf mínúta var eftir af leiknum.

Í næstu sókn hitti Pat Connaughton ekki körfuna í þriggja stiga skoti og Young kláraði svo leikinn á vítalínunni.

Giannis Antetokounpo skoraði 34 stig fyrir Milwaukee, tók tólf fráköst og gaf níu stoðsendingar. Jrue Holiday skoraði 33 stig og gaf tíu stoðsendingar.

Liðin mætast öðru sinni á morgun.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×