Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur hlutaðeigandi aðilum verið boðið að gangast undir það sem heitir lögreglustjórasátt, sem felst í að aðilum er boðið að greiða sekt innan tiltekins tímaramma.
Lögreglustjóri hefur heimild til að ljúka málum með sáttum af þessum toga þegar viðurlögin við brotinu eru innan ákveðinna marka.
Á þessari stundu er ekki ljóst hverjum verður gert að greiða sekt - hvort það verði aðeins rekstraraðilum eða einnig gestum.
Eins og þekkt er var Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra staddur í salnum umrætt kvöld ásamt eiginkonu sinni.

Bjarni segir í samtali við Vísi að hann hafi ekki haft veður af því að niðurstaða væri komin í málið. Hann kveðst enda ekki hafa verið til rannsóknar svo að hann vissi til. „Ég er ekki aðili að málinu,“ sagði Bjarni.
Ráðherra baðst á sínum tíma innilega afsökunar en sagðist á sínum tíma ekki hafa brotið sóttvarnalög með veru sinni á listaverkasýningu í salnum þetta kvöld. Hann sagði þó að rétt viðbrögð hefðu verið að yfirgefa listasafnið strax þegar fjölga fór í hópnum.
Í desember miðuðust almennar fjöldatakmarkanir við 10 manns en gestirnir í samkvæminu voru um 50. Um leið máttu veitingastaðir og barir aðeins vera opnir til 22 en lögreglan mætti á staðinn á ellefta tímanum eftir ábendingu um fjölmennt samkvæmi.
Samkvæmt svörum ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er niðurstaða komin í málið og hefur það verið afgreitt frá sviðinu. Frekari upplýsingar kvaðst sviðið ekki geta veitt vegna afgreiðslu einstakra mála.
Eigendur listasafnsins í Ásmundarsal hafa ekki veitt fréttastofu viðtal. Þeir báðust á sínum tíma afsökunar á að hafa „misst yfirsýn“ þegar leið á kvöldið og haft ekki stjórn á fjöldanum sem hóf að streyma inn upp úr hálfellefu.