Veðurstofan segir að engar tilkynningar hafi borist frá fólki sem hefur fundið fyrir skjálftunum. Sá stærsti hingað til mældist 2,3 að stærð og varð rétt fyrir klukkan átta í morgun.
Í samtali við Vísi segir jarðskjálftafræðingur Veðurstofunnar erfitt að setja skjálftahrinuna í samhengi við eldgosið í Geldingadölum eða þá skjálftavirkni sem hefur verið í gangi þar síðasta rúma ár.
„Þetta er náttúrulega bara þekkt jarðskjálftasvæði og það er búin að vera ágætisvirkni á Reykjanesskaganum. Fyrir helgi var hún aðallega við Reykjanestá og svo höfum við fengið einhverja skjálfta við Kleifarvatn. Þannig þetta hoppar dáldið fram og til baka.“
Nú mælast skjálftarnir mun austar, við Þrengslin. Það er enn austar en svæðið við Brennisteinsfjöll þar sem menn höfðu varað við að gæti komið risaskjálfti, allt að stærð 6,5, þegar jarðhræringarnar voru í gangi á Reykjanesskaganum fyrir gos.
Jarðskjálftafræðingur Veðurstofunnar segir að gosið hafi ekki útrýmt áhyggjum af stórum skjálfta í Brennisteinsfjöllum:
„Það er mikil spenna á því svæði sem á eftir að losna. Hún á eftir að losna en það er bara spurning um hvenær. Það er mjög langt síðan það voru stórir skjálftar þarna.“ Það var síðast árið 1968 að mældist jarðskjálfti af stærð 6,0 við brennisteinsfjöll.