EM alls staðar hefur heldur betur staðið undir nafni en England hefur sloppið merkilega vel þar sem liðið hefur leikið alla sína leiki til þessa á Wembley-leikvanginum í Lundúnum. Einnig fara báðir undanúrslitaleikirnir sem og úrslitaleikurinn sjálfur fram á Wembley.
Lið Úkraínu hefur ekki sloppið jafn vel en það spilaði riðlakeppnina annars vegar í Hollandi og hins vegar í Ungverjalandi. Þá fór leikur Úkraínu og Svíþjóðar í 16-liða úrslitum fram í Skotlandi.
England þarf loks að fara út fyrir landsteinana fyrir viðureign liðanna í 8-liða úrslitum en hún fer fram í Rómarborg á Ítalíu. Þar vandast málin fyrir stuðningsfólk Englands en ítölsk heilbrigðisyfirvöld hertu sóttvarnarreglur þann 21. júní.
Anyone who has been in the UK in the previous 14 days will be barred from the stadium, even if they have a ticket, officials have warned.
— Sky Sports News (@SkySportsNews) July 1, 2021
Fólk sem hefur verið á Englandi á einhverjum tímapunkti undanfarnar tvær vikur áður en það kemur til Ítalíu þarf að fara í fimm daga sóttkví. Skiptir engu hvort fólk sé bólusett eða með neikvætt kórónuveirupróf.
Einu aðilarnir sem eru undanskyldir slíkri sóttkví eru starfsmenn Evrópusambandsins, diplómatar og stúdentar. Það er ef þeir aðilar eru aðeins 36 klukkustundir í landinu. Þau myndu samt ekki fá að mæta á leikinn þar sem fólk þarf að sýna fram á að hafa verið fimm daga í sóttkví til að komast inn á leikvanginn.
Skiptir engu máli hvort fólk sé með miða eður ei. Ef fólk reynir að svindla á sóttkví til að komast á leikinn á það yfir höfði sér sekt upp á 440 þúsund krónur
Englendingar búsettir á Ítalíu eða öðrum löndum í kring geta keypt miða á leikinn en enska knattspyrnusambandið skilaði öllum þeim miðum sem það fékk frá UEFA. Til að komast á leikinn þarf fólk að framvísa staðfestingu á að það sé fullbólusett eða að það hafi fengið Covid-19.

Ítalía tekur ekki á móti ferðamönnum frá Úkraínu og því verður verulega forvitnilegt að sjá leik Englands og Úkraínu á Stadio Olimpico-vellinum í Rómarborg klukkan 19.00 á laugardaginn kemur þar sem það stefnir í tómar stúkur.

EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 er einnig hægt að kaupa stakt á lækkuðu verði frá og með 24. júní á kr. 3.990.