„Um klukkan hálf fimm í morgun þá var eins og óróinn, sem hafði verið hár í gær í meira en sólarhring, hafi fallið aftur og mælist mjög lágur,“ segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi.
Hann segir þó að hraun renni enn úr gígnum en líklegast rennur meirihluti hraunsins nú neðanjarðar. Lítið hefur sést í eld síðan í morgun, líkt og myndir úr vefmyndavél Vísis af gosstöðvunum bera vitni um þegar þetta er skrifað.
Einar segir þó að veðurstofan hafi fyrr í dag fengið veður af því að hrauntaumur hefði legið frá gosinu ofanjarðar þegar þyrluflugmaður flaug þar yfir.
„Það virðist vera að það skiptist á aukin virkni og minni virkni inn á milli.“
Einar segir að nú sé beðið eftir nýjustu mælingum Háskóla Íslands á því hversu mikið hraunið hefur stækkað frá síðustu mælingu. Með því sé hægt að meta hvort dregið hafi uppstreymi frá gosinu.
Einar segir þessa hegðun gossins, sem hefur ýmist bætt í eða dregið verulega úr, ekki gefa vísindamönnum mikinn efnivið til þess að ráða úr því sem koma skal varðandi framvindu gossins.
„Það er voða erfitt að segja til um hvað gerist í framtíðinni en við bara fylgjumst með og gerum allt eins ráð fyrir því að óróinn taki sig upp að nýju.“
Gervitunglamynd sýnir virknina
Eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands birti í dag gervitunglamynd af gosstöðvunum sem tekin var í gærkvöldi.
Þar sýnir stuttbylgju- eða nærinnrauð mynd virknina á svæðinu. Gígurinn er merktur blár en helstu virknisvæði rauð og gul.