Phoenix er þar með hálfnað í áttina að fyrsta NBA-meistaratitlinum, 2-0 yfir. Liðin eru hins vegar á leiðinni til Milwaukee þar sem næstu tveir leikir verða spilaðir, og Giannis Antetokounmpo er klár í slaginn að nýju eftir hnémeiðsli. Hann skoraði alla vega 42 stig í nótt og tók 12 fráköst.
Devin Booker og Mikal Bridges stóðu upp úr í liði Phoenix en það sem gerði gæfumuninn var hve góða aðstoð þeir fengu frá liðsfélögum sínum á meðan að Antetokounmpo fékk litla aðstoð.
Tíu sendinga sóknin sem endaði með körfu frá Deandre Ayton stóð upp úr að mati Phoenix-manna:
„Við töluðum einmitt um þessa sókn eftir leikinn, ég og Mikal, og hann var bara: „Ég held að ég hafi aldrei verið eins peppaður yfir einni sókn.“ Ég var svo innilega sammála,“ sagði Booker.
Phoenix hafði aldrei í sögunni verið yfir í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar, þegar liðið vann svo fyrsta leik einvígisins við Milwaukee. Þetta er í þriðja sinn í sögunni sem liðið leikur til úrslita en árin 1976 og 1993 tókst liðinu ekki að vinna meira en tvo leiki.
Phoenix getur bætt úr því með sigri í næsta leik sem er á sunnudagskvöld, á miðnætti að íslenskum tíma, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.