Körfubolti

Annar stórleikur hjá gríska goðinu þegar Hirtirnir minnkuðu muninn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Giannis Antetokounmpo skoraði 41 stig í fyrsta heimaleik Milwaukee Bucks í úrslitum NBA-deildarinnar frá 1974.
Giannis Antetokounmpo skoraði 41 stig í fyrsta heimaleik Milwaukee Bucks í úrslitum NBA-deildarinnar frá 1974. getty/Justin Casterline

Giannis Antetokounmpo átti stórkostlegan leik þegar Milwaukee Bucks sigraði Phoenix Suns, 120-100, í þriðja leik liðanna í úrslitum NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. Staðan í einvígi liðanna er nú 2-1, Phoenix í vil.

Giannis skoraði 42 stig og tók tólf fráköst í öðrum leik liðanna á fimmtudaginn sem Phoenix vann. Hann átti annan stórleik í nótt, skoraði 41 stig, tók þrettán fráköst og gaf sex stoðsendingar, og að þessu sinni vann Milwaukee. Giannis hitti meira að segja úr þrettán af sautján vítaskotum sínum í leiknum.

Eftir slaka frammistöðu í öðrum leiknum lék leikstjórnandinn Jrue Holiday vel í nótt, skoraði 21 stig, gaf níu stoðsendingar og setti niður fimm þriggja stiga skot. Khris Middleton skoraði átján stig fyrir Milwaukee.

Chris Paul skoraði nítján stig fyrir Phoenix og gaf níu stoðsendingar. Jae Crowder og Deandre Ayton skoruðu átján stig hvor. Devin Booker náði sér ekki á strik, skoraði aðeins tíu stig og brenndi af ellefu af fjórtán skotum sínum.

Phoenix setti niður tuttugu þrista í öðrum leiknum en að þessu sinni voru þeir aðeins níu. Á meðan skoraði Milwaukee fjórtán þriggja stiga körfur og var með fína nýtingu (38,9 prósent).

Milwaukee vann frákastabaráttuna, 47-36, og skoraði tuttugu stig eftir sóknarfráköst. Þá skoruðu heimamenn 54 stig inni í teig gegn fjörutíu stigum gestanna.

Fjórði leikur liðanna fer fram á heimavelli Milwaukee á miðvikudaginn.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×