„Óróinn fór aftur í gang um miðnætti. Það er búið að vera myndarlegt hraunflæði niður í Meradali,“ sagði Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, í morgun.
„Um klukkan þrjú til hálffjögur í nótt fóru aftur að koma púlsar í óróann,“ sagði Einar og virðist gígurinn þá hafa farið að senda frá sér hraungusur í skorpum.
Það var um fimmleytið síðdegis í gær sem gosvirknin féll niður. Þetta síðasta goshlé virðist því aðeins hafa varað í um sjö klukkustundir.
Undanfarnar þrjár vikur hafa skipst á goshlé og goshrinur en engin regla virðist vera á tímalengd þeirra. Hér má fylgjast með óróariti jarðskjálftamælis við Grindavík.