Að vera nýbúin að ráða sig til vinnu og átta sig á því að við erum mjög óánægð í nýju vinnunni er erfið tilfinning að glíma við. Margir fá jafnvel samviskubit yfir því að vera ekki ánægð.
Ekki síst á tímum Covid.
En tilfinningarnar okkar geta verið svo allt aðrar en skynsemi.
Spurningin er þá þessi:
Hvað ætlum við að gera í stöðunni? Því varla gagnast það okkur að halda bara áfram að vera óánægð alla daga?
Í umfjöllun Harvard Business Review er á það bent að mikilvægast fyrir okkur er að vera raunhæf.
Ekki aðeins með tilliti til þess hver staðan er á vinnumarkaði almennt, heldur þurfum við einnig að minna okkur á að ekkert starf er til sem er 100% einungis frábært.
Gott fyrsta skref er að spyrja okkur sjálf:
Hvað í þessu starfi er að gagnast mér mest og best?
Svarið gæti verið:
- Ég fæ laun
- Framfærsluöryggið er gott fyrir fjölskylduna mína, maka, börn og heimili
- Á ferilskránni minni sést að ég var ekki atvinnulaus nema í XXX tíma
- Á launum get ég lifað áfram þeim lífstíl sem ég helst kýs, til dæmis notið áhugamála minna
- Ég kynnist nýju fólki
- Mér líður betur með vinnu en án vinnu og í óöryggi
- Ég kann það sem ég var ráðin til að gera og get nýtt styrkleika mína
- Ég get þjálfað mig í að verða betri í einhverju
Að beina huganum að því sem jákvætt er og að þakklæti, hjálpar okkur að byggja upp ánægju og vellíðan.
En hvað ef hugurinn er fastur í því að þetta sé aðeins tímabundið starf?
Fyrir vikið bíðum við og bíðum eftir því að geta hætt í starfinu sem fyrst og ráðið okkur í betra starf?
Að sögn sérfræðinga er þetta viðhorf sem fólk ætti að forðast. Því þótt ráðningin sé tímabundin gerir það okkur ekki gagn að hugsa of mikið um það.
Þvert á móti gerir það okkur gagn að leggja okkur fram í starfið og hugsa það í rauninni til langstímalitið, óháð því hvernig málin þróast. Að þjálfa hugann í þessa átt hjálpar okkur til að líða betur og við nýtumst vinnuveitandanum betur sem starfsmaður.
En hvað ef það er eitthvað í nýju vinnunni sem þú ert hreinlega ekki að halda út? Segjum til dæmis sá parturinn sem snýr að sölumennskunni?
Ef starfið er þannig að það er eitthvað eitt ákveðið verkefni eða hluti af starfinu sem þú átt erfitt með, er gott að velta því fyrir sér hvort tilefni sé til að ræða þann partinn við yfirmann þinn.
Að minnsta kosti gagnast það þér ekkert að vera í sífelldu samtali við sjálfan þig í huganum, um hversu erfitt þér finnst þessi verkefnahluti vera.
Að ræða við yfirmanninn þýðir ekkert endilega að þú ræðir þig í gegnum það að mega þá sleppa þessum hluta starfsins, til dæmis sölumennskunni. En kannski getur yfirmaðurinn þinn leiðbeint þér eða komið því betur í farveg, að þú fáir aðstoð, þjálfun eða góð ráð sem gerir þér auðveldara með að ráða við tiltekið verkefni.
Loks máttu spyrja sjálfan þig: Hvernig er skynsamlegast fyrir þig að nýta þennan tíma með framtíðar atvinnumöguleika í huga?
Ein leiðin er til dæmis að skoða hvort það séu einhver sniðug námskeið sem hægt er að taka samhliða vinnu, sem færa okkur nýja þekkingu og skapa mögulega fyrr tækifæri fyrir frekari starfsþróun eða breytingar.