Næsttekjuhæsti áhrifavaldur ársins 2020 er Birgitta Líf Björnsdóttir með mánaðartekjur upp á tæpa eina milljón króna. Birgitta er markaðsstjóri World Class og eigandi skemmtistaðarins Bankastræti Club og stafa allar tekjur hennar þannig ekki af áhrifavaldi hennar.
Í þriðja sæti er Eva Ruza Miljevic með rúmlega 900 þúsund krónur í tekjur á mánuði. Eva Ruza er virk á samfélagsmiðlinum Snapchat auk þess að færa fólki fréttir af fræga, fallega, fína og ríka fólkinu á hverjum degi á K100.
Í fjórða sæti er Linda Benediktsdóttir með 800 þúsund krónur í mánaðartekjur. Linda heldur úti vefsíðunni lindaben.is og segist starfa sem áhrifavaldur, uppskriftahöfundur og matarstílisti.
TikTok-stjarnan Arnar Gauti Arnarsson, betur þekktur sem Lil Curly, er í fimmta sæti listans með 730 þúsund krónur í mánaðartekjur. Lil Curly er með yfir 780 þúsund fylgjendur á samfélagsmiðlinum TikTok.
Klara Sif ekki eina Onlyfans-stjarnan á listanum
Athygli vekur hversu margar Onlyfans-stjörnur eru á lista Tekjublaðsins í ár. Engin þeirra kemst þó með tærnar þar sem Klara Sif hefur hælana hvað varðar tekjur.
Næsttekjuhæsta Onlyfans-stjarnan er Birta Rós Blanco sem þénaði 291 þúsund krónur á mánuði í fyrra.
Aðrir ríða ekki jafnfeitum hesti en tekjulægsta Onlyfans-stjarnan á listanum er Stefán Octavian Bjarnason með 21 þúsund krónur á mánuði.
Tíu tekjuhæstu áhrifavaldar ársins 2020:
- Klara Sif Magnúsdóttir, Onlyfans-stjarna 1.098 þúsund
- Birgitta Líf Björnsdóttir, markaðsstjóri og veitingamaður 971 þúsund
- Eva Ruza Miljevic, snappari og fjölmiðlakona 920 þúsund
- Linda Benediktsdóttir, áhrifavaldur, uppskriftahöfundur og matarstílisti 802 þúsund
- Arnar Gauti Arnarsson, TikTok-stjarna 729 þúsund
- Sólveig V Sveinbjörnsdóttir, snappari 721 þúsund
- Sólrún Lilja Diego Elmarsdóttir, rithöfundur 525 þúsund
- Laufey Ebba Eðvarðsdóttir, TikTok-stjarna 506 þúsund
- Ingileif Friðriksdóttir, framkvæmdarstjóri og snappari 498 þúsund
- Guðrún Veiga Guðmundsdóttir, snappari 446 þúsund
Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út í dag en rétt er að árétta að um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2020 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2019 sem var greiddur árið 2020.
Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá en í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, til dæmis af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði. Þá ber að hafa í huga að inn í tekjunum geta líka verið einskiptisgreiðslur vegna úttektar á séreignasparnaði hjá lífeyrissjóði.