Hraunið fór aftur að renna niður í Nátthaga um klukkan 18 í dag en að sögn Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands hefur þessi þróun legið í loftinu síðustu daga þar sem hraunárnar hafa verið að leita meira til suðurs. Nær allt hraun sem hefur runnið síðustu tvo mánuði hefur farið austur í Meradali.
Hægt að komast í návígi við glóandi hraun
„Þetta rennur svoldið svona á víxl alltaf. Þetta er náttúrulega langur tími á milli kannski. Hraunið finnur sér alltaf nýjar leiðir til að renna,“ segir Böðvar Sveinsson náttúruvársérfræðingur í samtali við Vísi.
Nú þegar hraunið er aftur farið að renna í Nátthaga er hægt að komast í návígi við glóandi hraun á ný án mikillar fyrirhafnar. Einn þeirra sem fór að gossvæðinu í dag sendi Vísi þær myndir sem fylgja fréttinni.

Fyllist ekki á næstu dögum eða vikum
Hraunið er því aftur farið að renna í átt að Suðurstrandarvegi en til að hraun nái að honum verður Nátthaginn að fyllast fyrst.
Er Nátthaginn nálægt því að fyllast?
„Nei, það gerist ekki á næstu klukkutímum, dögum eða vikum,“ segir Böðvar. „Það tekur bara sinn tíma.“
Þannig það er enn langt í þetta?
„Það er svona spurning hvað er skilgreint sem langt. Það er kannski stutt á jarðsögulegum tíma… en þetta verður ekkert núna alveg á næstunni.“