Maðurinn var á leið frá Seyðisfirði á Strandatind og hafa hátt í sjötíu björgunarsveitarmenn tekið þátt í leitinni í dag, að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Viðbótarmannskapur var kallaður til um klukkan sex sem hefur þjálfun og reynslu af leit í fjalllendi.
Kallar á þrautþjálfað fólk
Svæðið er erfitt yfirferðar og einkennist af klettum og bröttum hömrum. Björgunarsveitir frá Austurlandi og Norðurlandi eystra taka þátt í leitinni.
„Þetta kallar á það að fólk sé vant að vinna í þessum aðstæðum svo það geti tryggt eigið öryggi og annarra,“ segir Davíð.
Líklegast verði leitað fram í myrkur og staðan svo endurmetin í samráði við lögreglu ef ekkert verður búið að breytast.