Britney var svipt sjálfræði eftir að hún var nauðungarvistuð á geðdeild árið 2008 eftir að hafa fengið taugaáfall. Síðan þá hefur faðir söngkonunnar, James Spears , farið með mest völd yfir lífi hennar.
Söngkonan hefur staðið í harðri baráttu fyrir því að fá stjórn á eigin lífi á nýjan leik. Síðastliðið ár sótti hún tvisvar um að faðir henni myndi láta af forræði yfir henni.
Hún tjáði sig um frelsissviptinguna fyrir dómstólum í sumar þar sem hún greindi meðal annars frá því að hún hefði verið neydd til þess að vera á getnaðarvörn.
„Ég hef logið því að öllum heiminum að allt sé í lagi og mér líði vel“ sagði Britney við dómarann í dag. Hún sagðist hafa verið í afneitun og talið sér trú um að ef hún segði sjálfri sér nógu oft að henni liði vel færi henni að gera það. „Ég er í losti og áfalli. Ég er svo reið að það nær engri átt.“
Sjálfræðisbarátta hennar hefur vakið heimsathygli og aðdáendur víða um heim stutt söngkonuna á veraldarvefnum og efnt til mótmæla undir myllumerkinu #FreeBritney.
Í síðasta mánuði bárust fréttir þess efnis að faðir hennar hefði tekið ákvörðun um að láta af forræðinu sökum linnulausra árása í sinn garð. Nú hefur hann skrifað undir pappíra þar sem hann lætur formlega af forræði yfir dóttur sinni en nú tekur við nokkur bið eftir að skjölin verði staðfest af dómstólum.
„Ef fröken Spears vill endurheimta sjálfræðið og telur að hún geti ráðið við sitt eigið líf, telur herra Spears að hún eigi að fá tækifæri til þess,“ segir í dómskjölum.