Skoðun

Lykillinn að betri heimi er falinn í vel­ferð barna

Halldóra K. Hauksdóttir skrifar

Ásmundur Einar Daðason, Félags- og barnamálaráðherra hefur unnið mikið og gott starf og stigið mörg mikilvæg skref í átt að farsæld barna og fjölskyldna, sem er mjög mikils virði.

Breytingar á barnaverndarlögum

Umfangsmikil vinna við stefnumótun í málefnum barna og þá einkum barnavernd innan stjórnsýslunnar hefur átt sér stað. Þær umbætur sem stefnt er að, eru umfangsmiklar og í raun tvíþættar. Það eru annars vegar tilteknar breytingar innan stjórnsýslunnar í í samræmi við samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og hins vegar þau verkfæri sem barnavernd hefur, þ.e. úrræði og hlutverk ríkis og sveitarfélaga við veitingu úrræðanna og þar með skiptingu kostnaðar á milli stjórnsýslustiga.

Ég fagna þeirri breytingu sem lögð er til og tel tímabært að breyta umgjörð barnaverndar á Íslandi, stækka umdæmin og auka vægi fagfólks. Mín upplifun er þó í flestum tilfellum sú að leitast sé við að fá fólk í nefndirnar sem búa yfir ákveðinni reynslu og þekkingu og að stjórnmálaflokkar horfi til þess við skipun nefndarmanna fremur en að horfa á flokksskírteinið. Með breytingunni er þó tryggt að þeir sem taka ákvarðanir í þessum viðkvæmu en mikilvægu málefnum hafi til þess þá sérþekkingu sem þarf og þverfaglegur grunnur þeirra sé tryggður. Skipan faglegra umdæmisráða er jafnframt til þess fallin að auka trúverðugleika og traust til starfa þeirra og ákvarðana. Þá eykur það jafnframt samræmi við ákvarðanatöku að umdæmisráðin nái yfir stærri svæði en núverandi barnaverndarnefndir, sem eykur fjarlægð á milli þeirra sem þurfa að taka erfiðar ákvarðanir og þeirra sem þær taka til. Þar með myndu barnaverndarnefndir í litlum samfélögum þá heyra sögunni til, enda getur slíkt verið afar óheppilegt og sett alla aðila í óþægilega stöðu. Það þarf þó enn að útfæra lagafrumvarpið betur og skerpa á því, því skýra þarf hlutverk og umgjörð umdæmisráða. Taka þarf af öll tvímæli er varða skráningu mála og gagnaöflun við vinnslu þeirra. Þá er einnig mikilvægt að barnaverndarþjónusta verði samþætt annarri þjónustu og afar brýnt að afnema hindranir milli kerfa og bæta þjónustuna þannig að það létti á notendunum og bæti yfirsýn.

Fjárfestum í börnum og fjölskyldum.

Skapa þarf lagaumhverfi sem miðar að snemmtækum stuðningi við börn til að tryggja aukna samvinnu og samfellu í þjónustu við börn. Til þess að ná þessu markmiði þurfum við að fjárfesta í framtíðinni og auka úrræði í barnaverndarmálum. Við viljum ekki hætta á að ná ekki árangri, þar sem það er möguleiki, vegna þess að lausnin er til, en er ekki í boði. Í dag höfum við úrræði á borð við miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, kvennaathvarf o.fl., sem hafa svo sannarlega sannað gildi sitt. Ég tel mikilvægt að við lítum til slíks úrræðis í þágu barna og setjum á fót svokallað fjölskylduhús sem yrði miðstöð fyrir þjónustu við börn og fjölgar verkfærum barnaverndar.

Fjölskylduhús

Ef fjölskylduhús yrði sett á fót, væri unnt að fækka skammtímavistunum barna utan heimilis svo og lengri tíma fósturráðstöfunum. Úrræðið myndi veita markvissari greiningu og meðferð en hægt hefur verið að veita fram til þessa. Þannig yrði betur hægt að ná utan um foreldra og börn og koma til móts við þarfir þeirra. Í fjölskylduhúsi væri hægt að vinna með samskipti foreldra og barns, beita markvissri kennslu og leiðbeiningum til foreldra og um leið gæta að öryggi barnanna. Þá væri með fjölskylduhúsi möguleiki á að taka á móti börnum/ungmennum sem eru að snúa til baka úr fóstri eða meðferðum til að aðlaga þau aftur heim svo eitthvað sé nefnt.

Öll viljum við vinna að hagsmunum barnanna, enda er það lögmæt skylda okkar. Það vantar þó nokkuð upp á að barnaverndaryfirvöld geti unnið betur með foreldrum. Því miður er það svo að aðilar upplifa sig oft sem gagnaðila barnaverndar og upplifa að barnavernd sé að vinna gegn þeim. Vinna þarf gegn þessari upplifun foreldra og undirbyggja betur samstarf barnaverndar og foreldra í þágu barnanna, enda ætti hagur þeirra að vera sameiginlegt markmið foreldra og barnaverndar. Fjölskylduhús gæti verið þáttur í að ná þessu markmiði.

Ég tel nauðsynlegt að setja á stofn fjölskylduhús í kjördæminu sem yrði staðsett á Akureyri. Slík starfsemi byði upp á fagfólk sem væri sérmenntað til að takast á við tilfallandi vandamál. Fjölskylduhús myndi sinna öllu kjördæminu oggæti orðið sérstakt tilraunaverkefni.

Samvinna eftir skilnað

Í þessu samhengi langar mig einnig að nefna tilraunaverkefnið „samvinna eftir skilnað“, sem hefur reynst vel. Ein algengustu áföll barna er skilnaður foreldra. Það er þó ekki skilnaðurinn sjálfur sem veldur mestum skaða, heldur það hvernig staðið er að honum gagnvart börnunum. Skilnaður foreldra tekur yfirleitt á börn og þá sérstaklega ef ágreiningur er á milli foreldra við skilnaðinn. Það er erfitt að ganga í gegnum skilnað, fólk ræður oft ekki við tilfinningar sínar og leitar því stundum eftir aðstoð. Foreldrar eiga þar af leiðandi oft erfitt með að setja hagsmuni barna sinna framar eigin og láta stjórnast af erfiðum og flóknum tilfinningum við skilnaðinn. Það að bjóða foreldrum upp á sérhæfða ráðgjöf varðandi skilnað er í raun snemmtæk íhlutun, sem getur komið í veg fyrir ágreining á milli aðila, eða að minnsta kosti komið í veg fyrir að slíkur ágreiningur dragist á langinn. Þá stuðlar verkefnið að betri foreldrasamvinnu með hagsmuni barnanna að leiðarljósi sem er ákaflega dýrmætt.

Þetta verkefni er því til þess fallið að koma í veg fyrir alvarlega vanlíðan og kvíða hjá börnum sem lenda á milli foreldra sinna við skilnað, þar sem foreldrar fá leiðbeiningar og aðstoð við að leysa úr mögulegum ágreiningi áður en hann kemst á alvarlegt stig. Verkefnið er mjög mikilvægt fyrir hagsmuni barna og því brýnt að þessu verkefni verði haldið áfram og það tekið upp um allt land. Verkefnið gæti jafnframt dregið úr álagi á sýslumannsembættin, en ljóst er að þar er nú margra mánaða bið eftir sáttameðferð og þurfa foreldrarað bíða mánuðum saman eftir að fá aðstoð við að leysa úr ágreiningi sínum, sem bæði börn og foreldrar líða fyrir. Það er því afar mikilvægt að þessu verkefni verði haldið áfram ásamt því að stoðir sáttameðferðar hjá sýslumönnum í þágu hagsmuna barn séu styrktar.

Af framangreindu er lóst að mörg góð og mikilvæg skref hafa verið stigin í þágu hagsmuna barna, en betur má ef duga skal og því mikilvægara en nokkru sinni að halda vinnunni áfram.

Höfundur skipar 5. sæti lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×