Morant er að fara að byrja sitt þriðja tímabil með Memphis Grizzlies liðinu þar sem hann var með 19,1 stig og 7,4 stoðsendingar í leik í deildarkeppninni og hækkaði það upp í 30,2 stig og 8,2 stoðsendingar í leik í úrslitakeppninni.
Ja Morant er kannski bara 191 sentímetrar á hæð sem þykir ekki mikið í NBA-deildinni en hann hefur margoft sýnt það að hann getur troðið boltanum í körfuna með tilþrifum.
Morant hefur meðal annars gefið á sjálfan sig í hraðaupphlaupi með því að troða eftir að hafa hent boltanum í spjaldið.
Þegar kom að því hjá blaðamanninum Taylor Rooks á netmiðlinum Bleacher Report að spyrja hann út í þátttöku í troðslukeppni Stjörnuleiksins þá stóð ekki á svari.
Morant er ekki tilbúinn að taka þátt í troðslukeppninni nema að honum verði boðið ein milljón Bandaríkjadala fyrir. Það eru 129 milljónir í íslenskum krónum.
Við getum því afskrifað það að sjá kappann einhvern tímann taka þátt í troðslukeppninni í framtíðinni.