Að sögn Bjarka Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, benda frumniðurstöður til þess að skjálftinn hafi verið 3,5 til 3,8 að stærð.
„Þetta er sama svæði og hrinan sem hefur verið í gangi rétt sunnan við Keili og skjálftinn fannst vel á suðvesturhorninu,“ sagði Bjarki þegar Vísir náði tali af honum.
Í gær mældust 700 skjálftar á mælum Veðurstofunnar en að sögn Bjarka hafa 200 skjálftar til viðbótar mælst eftir miðnætti.
En þýðir þetta að ný skjálftahrina sé að hefjast, líkt og í aðdraganda gossins í Fagradalsfjalli?
„Nei, í raun ekki,“ svarar Bjarki. „Og það er enginn órói. Það sést ekkert nýtt á vefmyndavélum; það er enn gos í Fagradalsfjalli en hefur ekkert flætt síðustu viku eða tíu daga. Gosið er ekkert búið og þessi skjálftahrina sem hófst á mánudag getur verið kvika að finna sér leið eða hreyfing á flekaskilunum.
Við verðum bara að sjá hvað gerist.“
Uppfært kl. 02.25:
Nú liggur fyrir að skjálftinn var 3,7 að stærð.
