Alls var 38 flugvélum flogið inn í loftvarnasvæðið í tveimur ferðum, samkvæmt varnarmálaráðuneyti Taívans. Orrustuþotur voru sendar til móts við þær og loftvarnakerfum miðað á þær. Í fyrstu bylgjunni voru meðal annars tvær sprengjuflugvélar sem geta borið kjarnorkusprengjur.
Fyrra metið, ef svo má segja, var sett þann 15. júní þegar 28 flugvélum var flogið inn á svæðið.
Forsætisráðherra Taívans sendi frá sér tilkynningu þar sem hann sakar ráðmenn í Kína um yfirgang og segir þá ógna friði á svæðinu, samkvæmt frétt Reuters.
Ferðum kínverskra herflugvéla inn í loftvarnasvæði Taívans hefur fjölgað mikið og það sama er að segja um ferðir herskipa inn í lögsögu Taívans. Talið er að með þessu vilji Kínverjar þreyta hermenn Taívans og grafa undan getu þeirra til að verja eyríkið.
Í fyrra var kínverskum herflugvélum flogið 380 sinnum inn á loftvarnasvæði Taívans. Á fyrstu níu mánuðum þessa árs eru ferðirnar orðnar fleiri en fimm hundruð, samkvæmt AFP fréttaveitunni.
Heita því að ná völdum í Taívan
Kínverjar segja Taívan tilheyra Kína en árið 1949 flúðu þjóðernissinna til eyjunnar undan kommúnistum í borgarastyrjöld landsins. Forsvarsmenn Kommúnistaflokksins hafa heitið því að ná völdum í Taívan, með valdi ef nauðsynlegt sé.
Xi Jinping, forseti Kína, hefur sagt það „óhjákvæmilegt“ að Taívan verði hluti af Kína.
Taívanar segjast sjálfstæðir og segjast ætla að verja frelsi þeirra og lýðræði. Sjálfstæðissinnum hefur vaxið ásmegin í Taívan á undanförnum árum en Taívanar hafa aldrei lýst yfir formlegu sjálfstæði.