„Við höldum að þessi lykt hafi komið frá dísilrafstöð, sem er í porti í Hafnarstrætinu, og er hugsuð sem varaaflsstöð fyrir Landsbankann,“ segir varðstjóri hjá slökkviliðinu í samtali við fréttastofu.
„Þetta er svona öryggisbúnaður, sem er hjá mörgum svona fyrirtækjum og við erum til dæmis með hérna hjá okkur líka, og eru oft kallaðir ufsar. Þeir eru hugsaðir sem öryggisventill svo að allt tölvukerfið hrynji ekki þegar rafmagnið slær út.“
Dísilrafstöðin í Hafnarstrætinu sé gömul og hafi líklega ekki farið í gang svo árum skipti.
„Svo þegar hún hrekkur allt í einu í gang þegar það slær út þá hefur komið svona reykjarlykt frá henni.“
Enn rafmagnslaust á litlu svæði
Enn er rafmagnslaust í kring um Tryggvagötu, Mýrargötu og Geirsgötu en samkvæmt Veitum verður það svæði vonandi aftur komið með rafmagn fyrir klukkan 20 í kvöld.
Rafmagnið fór af rétt fyrir klukkan 18 vegna háspennubilunar í aðspennustöð á Barónsstíg.
Uppfært 8.10.2021 Landsbankinn sendi áréttingu um að varaaflstöðvar bankans sem fjallað er um í fréttinni séu ræstar og prófaðar einu sinni í mánuði. Vélarnar séu í góðu ásigkomulagi og hafi ávallt virkað vel þegar á hefur reynt.