Innlent

Hand­tekinn fyrir að á­reita börn og brot á vopna­lögum

Atli Ísleifsson skrifar
Tilkynnt var um málið um klukkan 21:20 í gærkvöldi, en maðurinn sagði börnin hafa verið að gera dyraat við heimili hans.
Tilkynnt var um málið um klukkan 21:20 í gærkvöldi, en maðurinn sagði börnin hafa verið að gera dyraat við heimili hans. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu handtók í gærkvöldi mann sem grunaður er um að áreita börn og brot á vopnalögum. Maðurinn bar því við að börnin hafi verið að gera dyraat við heimili hans.

Í dagbók lögreglu segir að tilkynnt hafi verið um málið 21:20 í gærkvöldi en atvikið átti sér stað í hverfi 104 í Reykjavík. Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Einnig segir frá því að um hálf tólf í gærkvöldi hafi kona í annarlegu ástandi verið handtekin í miðborg Reykjavíkur. Er hún grunuð um eignaspjöll, vörslu fíkniefna og þjófnað og var flutt í fangageymslu lögreglu.

Um hálf tíu voru afskipti höfð af pari í annarlegu ástandi sofandi í bíl á bílastæði í hverfi 105 og var vél bílsins í gangi. Maðurinn er grunaður um vörslu fíkniefna og brot á vopnalögum.

Þá þurfti lögregla einnig að hafa afskipti af ökumönnum sem grunaðir eru um ölvun við akstur eða akstur undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×