Elín og Lóa Pind, sem báðar störfuðu sem fréttamenn á Stöð 2 á sínum tíma, ræddu upphafsárin við Kristján Má Unnarsson í afmælisþættinum. Þar rifjuðu þær til dæmis upp hvernig fréttamálum var skipt upp á milli kynja, konur hafi fengið „mjúku“ málin en karlarnir hafi verið sendir í eldgosaferðir og fleira.
Þær tvær hafi hins vegar ekkert gefið eftir og Elín Hirst hafi til dæmis verið fyrsti fréttamaðurinn sem hafi elt ráðherra til að krefjast svara í beinni útsendingu.
„Það er fullt sem gerist í svona sjónvarpi sem við segjum aldrei frá. En það eru samt örugglega einhver leyndarmál sem er allt í lagi að segja frá núna,“ sagði Kristján Már í þættinum og bað þær Lóu og Elínu að kjafta frá.
„Ég er með eitt sem ég er búin að burðast með mjög lengi og ég veit ekki hvort ég á að þora. En ég heyrði að Edda Sif Pálsdóttir hafi oft legið undir fréttaborðinu hjá pabba sínum. Þetta kom einu sinni fyrir hjá mér að ég fékk ekki pössun og var með strákana mína, held ég sex og átta ára, undir fréttaborðinu,“ sagði Elín.
„Þetta var dálítill geimur og ég geymdi þá þarna í beinni útsendingu. Þetta voru svo vel upp alin börn að þeir létu ekkert á sér bæra. Nema það í lokin þá held ég að Björk hafi komið í stúdíóið, sem var alveg við hliðina á fréttaborðinu. Þá gátu mínir menn ekki setið á sér og laumuðu andlitunum upp, það komu tveir glókollar upp á fréttaborðið. Þetta var svo sætt en ekki prófessjónal,“ sagði Elín Hirst.
„Lóa átt þú einhverja svona sögu?“ spurði Kristján þá Lóu.
„Nei, veistu, það hefði aldrei gengið að hafa mína drengi inni í stúdíói. Það hefði rofið útsendingu.“
Lóa sagðist ekki muna eftir neinum leyndarmálum, en Elín rifjaði upp að eitt sinn hafi Ómar Ragnarsson verið að lesa fréttirnar á nærbuxunum. Hann hafi ekki mátt vera að því að klæða sig í nema skyrtu, bindi og jakka.
„Hann var bara að koma úr einhverjum leiðangri og mátti ekkert vera að þessu.“