Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum. Virkni í gígnum í Geldingadölum hefur legið niðri undanfarnar fjórar vikur og hafa óróamælingar verið í samræmi við það að því er fram kemur í tilkynningunni.
Skjálftavirkni jókst sunnan Keilis í byrjun október en hefur gengið niður síðustu daga. Enn er fylgst vel með svæðinu með tilliti til aukinnar skjálftavirkni, óróa og landbreytinga. Þá má áfram búast við hættu á svæðinu og er fólki ekki ráðlagt að ganga á hraunbreiðunni eða reyna að nálgast gíginn.
Rétt tæpir sjö mánuðir eru liðnir síðan almannavarnastigið vegna eldgossins var fært niður af neyðarstigi á hættustig en það var gert þann 20. mars síðastliðinn.