Óverðtryggðir kjörvextir hækka um 0,20 prósentustig hjá bankanum og yfirdráttarvextir einstaklinga og fyrirtækja um 0,25 prósentustig. Óverðtryggðir vextir Ergo hækka um 0,25 prósentustig, að því er fram kemur á vef bankans.
Vaxtabreytingarnar taka gildi á föstudag, 22. október. Samhliða þessu hækka breytilegir óverðtryggðir innlánsvextir hjá Íslandsbanka um allt að 0,25 prósentustig eða haldast óbreyttir.
Hækka á bilinu 0,15 til 0,20 prósentustig
Fyrr í vikunni tilkynnti Landsbankinn að breytilegir vextir á óverðtryggðum lánum yrðu hækkaðir um 0,2 prósentustig. Fastir vextir á óverðtryggðum lánum til þriggja ára hækkuðu um 0,15 prósentustig en um 0,10 prósentustig á óverðtryggðum lánum á föstum vöxtum til fimm ára.
Hjá Arion banka hækka óverðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir um 0,15 prósentustig. Óverðtryggðir fastir þriggja ára íbúðalánavextir hækka um 0,15 prósentustig.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði stýrivexti um 0,25 prósentustig þann 6. október. Þeir standa nú í 1,5 prósenti.