Bréfberinn rann til í hálku utan við hús á höfuðborgarsvæðinu þann 9. desember hvar hún var við störf fyrir Íslandspóst. Konan tvíbrotnaði á sköflungi og var frá vinnu um nokkurn tíma.
Konan gerði athugasemd við að hafa ekki fengið viðunandi skó hjá yfirmanni sínum þennan dag. Hún hafi tekið mannbrodda á vinnustaðnum, sett á sig en þeir verið lélegir og slitnað fljótlega. Var hún því ekki með neina brodda þegar slysið varð.
Í dómi Landsréttar var litið til þess að mannbroddar í öllum stærðum hafi verið tiltækir á vinnustaðnum og Íslandspóstur hvatt starfsmenn til að nota þá þegar þörf væri á. Með þeim hætti hefði Íslandspóstur gripið til viðeigandi ráðstafana til að tryggja öryggi starfsmanna við póstútburð.
Þá hefði legið fyrir að konan hefði haft mannbrodda undir höndum áður en hún hóf póstburð umræddan dag. Þá hefði henni hlotið að vera ljóst að nauðsynlegt væri að nota fyrrgreindan öryggisbúnað á slysdegi enda hefðu aðstæður verið erfiðar vegna hálku.
Auk þess hefði póstburðarleið hennar legið um hæðótt landslag. Var dómurinn í héraði því staðfestur.