Körfubolti

Meistararnir hrekktir enn á ný á heimavelli

Sindri Sverrisson skrifar
Justin Robinson og Jordan Clarkson glíma um boltann í leik Milwaukee Bucks og Utah Jazz.
Justin Robinson og Jordan Clarkson glíma um boltann í leik Milwaukee Bucks og Utah Jazz. AP/Jeffrey Phelps

Byrjunin á titilvörn Milwaukee Bucks hefur verið heldur róleg og liðið tapaði í gær 107-95 gegn Utah Jazz í NBA-deildinni í körfubolta.

Milwaukee hefur nú tapað þremur leikjum í röð, öllum á heimavelli, en meiðsli hafa hrjáð nokkra af byrjunarliðsmönnum liðsins. Þá var Khris Middleton ekki með í gær vegna veikinda.

Giannis Antetokounmpo var þó með og skoraði 25 stig, tók sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Leikmenn Utah skoruðu úr fyrstu fimm þriggja stiga tilraunum sínum og lentu aldrei undir í leiknum. Þeir höfðu kvöldinu áður tapað leik í fyrsta sinn á tímabilinu, gegn Chicago Bulls, en tóku strax við sér að nýju.

Donovan Mitchell skoraði 28 stig fyrir Utah og Mike Conley 20.

„Við tókum af skarið þegar þess þurfti. Ef maður skoðar síðustu tvo leiki þá brugðumst við algjörlega ólíkt við aðstæðum. Í leiknum gegn Chicago þá settu þeir stundum á okkur pressu og við vorum ekki tilbúnir. Bucks gerðu það aftur núna og við vorum tilbúnir. Þeir eru NBA meistarar. Þeir munu ekki segja þetta gott þó að þeir lendi 15 stigum undir,“ sagði Mitchell.

Carmelo Anthony kom af bekknum og skoraði 23 stig fyrir LA Lakers í 95-85 sigri gegn Houston Rockets.

Luka Doncic skoraði svo 23 stig og setti meðal annars niður þrist af löngu færi um leið og skotklukkan gall, í 105-99 sigri Dallas Mavericks gegn Sacramento Kings. Önnur úrslit má sjá hér að neðan.

Úrslitin í gær:

  • Dallas 105-99 Sacramento
  • Charlotte 125-113 Portland
  • Milwaukee 95-107 Utah
  • Brooklyn 117-91 Detroit
  • LA Lakers 95-85 Houston
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×