„Eins og hefur verið augljóst í fjölmiðlum hefur gengið erfiðlega að fá fólk til að koma og taka þátt í hringingum, eðlilega, því það hefur verið kappsmál hjá spítalanum að halda starfsemi sem eðlilegastri þrátt fyrir aukið álag.
Þannig að okkur datt í hug að leita til læknanema og við auglýstum eftir hópi klukkan þrjú á föstudegi og klukkutíma síðar voru mættir um 30 manns tilbúnir að leggja hönd á plóg,“ segir Hrafnhildur Linnet Runólfsdóttir, deildarlæknir á Covid-göngudeild.
Fréttastofa kynnti sér starfsemi símaversins í dag, hitti nokkra læknanema en einnig heimilislækni á eftirlaunum:
Fer beint í reynslubankann
Það eru ekki gleðitíðindi sem læknar á eftirlaunum og læknanemar keppast nú við að flytja nýjustu Covid-sjúklingum landsins á vegum göngudeildarinnar.
Mönnunarvandinn er alvarlegur og nú síðast lýsti heilbrigðisráðherra áhyggjum af því að neikvæð umræða um starfsaðstæður á Landspítala gæti beinlínis fælt heilbrigðismenntaða frá því að koma til starfa fyrir sjúkrahúsið.
Sú umræða hefur greinilega ekki fengið á systkini sem fréttastofa ræddi við, sem voru ánægð að fá hlutastarf með frjálslega vinnutíma.
„Þetta er bara mjög spennandi. Þetta fer beint í reynslubankann,“ segir Vífill Ari Hróðmarsson, 3. árs læknanemi. „Já, mér finnst þetta bara mjög gaman,“ segir Eygló Sóley Hróðmarsdóttir, 1. árs læknanemi og systir Vífils.
Vífill, sem er kominn lengra í náminu, segir stemninguna á meðal skólasystkina sinna alls ekki þannig að þau vilji ekki vinna á spítalanum vegna aðstæðna þar, nema síður væri.
„Þetta er bara frábært tækifæri að geta lagt sitt af mörkum í heimsfaraldri,“ segir Vífill og Eygló efast ekki um að foreldrar þeirra séu stoltir að sjá þau systkini stíga sín fyrstu skref í heilbrigðiskerfinu, enda bæði læknar.
Atvinnurekenda að tryggja bólusetningu verkamanna
Reynslumeiri læknir á svæðinu lýsir því að flestir viðmælenda hans séu Íslendingar en þeir sem veikist verst séu erlendir, óbólusettir verkamenn.
„Eitt sem hefur komið í ljós er að atvinnurekendur eru að flytja inn fullt af erlendum verkamönnum sem eru óbólusettir. Mér finnst að það eigi að stoppa það af,“ segir Haraldur Óskar Tómasson, heimilislæknir sem er kominn á eftirlaun.
Í hópi fjögurra bandarískra ferðamanna, bólusettra í bak og fyrir, hafi til dæmis þrír reynst einkennalausir með bráðsmitandi veiru.
„Þannig að eins og dómsmálaráðherra og ferðamálaráðherra vilja, opna landið, ég veit ekki hvað hefði gerst ef þeir hefðu sloppið inn svona og ógreindir,“ segir Haraldur.