Þá mælir skipulagsráðið einnig með því að að málefni uppbyggingar á Oddeyrinni verði tekin til umræðu að nýju að loknum sveitarstjórnarkosningum í vor. Þetta er meðal þess sem fram kemur í bókun sem ráðið samþykkti á fundi sínum í gær.
Hitamál í bænum
Töluvert hefur verið fjallað um fyrirhugaða uppbyggingu á Oddeyrinni eftir að byggingarverktakinn SS Byggir kynnti árið 2019 hugmyndir um nokkur háhýsi á reit á Oddeyrinni, svokölluð Gránufélagsreit.
Mikil umræða skapaðist um hugmyndirnar og sitt sýndist hverjum. Fór það svo að ákveðið var að efna til íbúakosningu um skipulag á svæðinu á þessu ári.

Fór það svo að 67 prósent þátttakenda greiddu atkvæði með gildandi skipulagi, þar sem gert er ráð fyrir þriggja til fjögurra hæða húsum á svonefndum Gránufélagsreit.
Í öðru sæti kom auglýst breytingatillaga þar sem hús geta verið sex til átta hæðir með átján prósent atkvæða og því næst málamiðlunartillaga með fimm til sex hæða húsum að hámarki með fjórtán prósent atkvæða. Eitt prósent þátttakenda tóku ekki afstöðu.
Aftur á byrjunarreit
Eftir að úrslitin lágu fyrir sagði fulltrúi SS Byggis í viðtali við Vísi að fyrirtækið myndi ekki koma að uppbyggingu á Oddeyri á Akureyri eftir að tillögum um breytingar á aðalskipulagi var hafnað í íbúakosningu.
Segja má því að málið sé að nálgast það að komast aftur á byrjunarreit. Var það tekið fyrir í skipulagsráði Akureyrarbæjar í gær þar sem samþykkt var að leggja til við bæjarstjórn að fallið yrði frá auglýstri tillögu á breytingu á aðalskipulagi á Oddeyrinni.
Þá mælir ráðið einnig með því að málefni uppbyggingar á Oddeyri verði tekin til umræðu að nýju að loknum kosningum og þegar bæjarstjórn metur hvort ástæða sé til að endurskoða aðalskipulagið.
Bókun ráðsins:
Með vísun í niðurstöðu íbúakönnunar leggur skipulagsráð til við bæjarstjórn að falla frá auglýstri tillögu að breytingu á aðalskipulagi á Oddeyri. Er mælt með að málefni uppbyggingar á Oddeyri verði tekin til umræðu að nýju að loknum kosningum og þegar bæjarstjórn metur hvort ástæða sé til að endurskoða aðalskipulagið, sbr. ákvæði 35. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.