
Í fréttum Stöðvar 2 var stiklað á stóru í olíuleitarsögu Íslands. Upphafið má rekja til ársins 1971 þegar olíufélagið Shell fékk leyfi til rannsókna á hafsbotninum við landið.
Fyrsta borunin var hins vegar við vitann í Flatey á Skjálfanda árið 1982. Það var iðnaðarráðherrann Hjörleifur Guttormsson í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen sem fól Orkustofnun þessa fyrstu olíuborun í sögu landsins. Tveimur árum áður hafði Hjörleifur skipað ráðgjafanefnd til að undirbúa olíuleit við Ísland.
Fátt gerðist síðan í olíuleitarmálum fyrr en iðnaðarráðherrann Össur Skarphéðinsson fór um norðausturland árið 2009, kynnti útboð á Drekasvæðinu og boðaði þjónustumiðstöð í Gunnólfsvík við Finnafjörð.

Það var svo í ráðherratíð Steingríms J. Sigfússonar sem fyrstu olíuvinnsluleyfunum var úthlutað og í framhaldinu sendu tveir sérleyfishafar rannsóknarskip á Drekasvæðið.
Hafinn var undirbúningur þess að senda borskip á svæðið þegar erlendir sérleyfishafar tilkynntu í ársbyrjun 2018 að þeir væru hættir við. Í framhaldinu afturkallaði Orkustofnun síðasta íslenska sérleyfið.

Síðan hefur enginn haft slíkt leyfi og núna hefur ríkisstjórnin kynnt í nýjum stjórnarsáttmála að hún muni ekki gefa út leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands.
Áform um uppbyggingu í Finnafirði gætu þó fengið byr en á öðrum forsendum, því þar er verið að undirbúa græna eldsneytisframleiðslu með vindorku vegna orkuskipta fyrir skipaflotann. Stjórnarsáttmálinn boðar nefnilega stuðning við græna atvinnuuppbyggingu.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má sjá frétt frá 2009 þegar Össur Skarphéðinsson kynnti olíuleitina fyrir íbúum norðausturlands: