„Skuldir hins opinbera eru að vaxa lítillega næstu árin þrátt fyrir spá um kraftmikinn hagvöxt,“ segir Agnar Tómas Möller, sjóðstjóri skuldabréfa hjá Kviku eignastýringu í samtali við Innherja þegar hann er beðinn um að leggja mat á það hvort skilaboðin í frumvarpinu séu í takt við áherslu stjórnvalda að fjármálastefnan vinni með Seðlabankanum að því að halda vöxtum lágum.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur á undanförnum vikum og mánuðum verið afgerandi í ummælum sínum um mikilvægi þess að ríkissjóður fari að draga úr vexti útgjalda og minnka hallareksturinn, nú þegar slakinn í hagkerfinu er óðum að hverfa.
Að öðrum kosti verði Seðlabankanum nauðugur sá kostur einn að hækka vexti – þeir hafa nú þegar farið úr 0,75 prósent í 2 prósent á örfáum mánuðum – meira en ella væri þörf á til að tryggja verðstöðugleika. Verðbólgan hefur farið stigvaxandi á árinu og mælist nú 4,8 prósent en markmið Seðlabankans er 2,5 prósent.
Agnar bendir á að það hafi verið að byggjast upp væntingar að undanförnu um að afkoma ríkissjóðs yrði talsvert betri en fyrri áætlanir höfðu gert ráð fyrir. „Hátt í tuttugu prósent aukning í tekjum ríkisins frá fjárlagafrumvarpinu í fyrra til ársins 2022 er alveg ótrúlegur viðsnúningur,“ útskýrir hann.
„Ef við drögum síðan frá innstæður og eignir í félögum þá nema skuldir ríkissjóðs í dag aðeins um átta prósent af vergri landsframleiðslu.“
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu batnar afkoma ríkissjóðs um 120 milljarða króna milli þessa árs og næsta árs og útlit er fyrir að tekjurnar verði 66 milljörðum hærri árið 2022 en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun síðastliðið vor. Heildartekjur ríkissjóðs á næsta ári verða 955 milljarðar króna. Bætt staða skýrist einkum af verulegri aukningu tekna af tekjuskatti einstaklinga og tryggingagjaldi, auk þess sem tekjuskattur lögaðila skilar 16 milljörðum umfram fyrri spá.
Þrátt fyrir skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu haldi áfram að hækka á komandi árum – það er ekki fyrr en eftir 2026 sem ráðgert er að sú þróun fari að snúast við – þá eru skuldahorfurnar mun hagfelldari en spáð var fyrir um í fjármálaáætlun stjórnvalda. Áætlað er að skuldirnar verði 34 prósent af landsframleiðslu á næsta ári í stað 42 prósent.
„Ef við drögum síðan frá innstæður og eignir í félögum,“ útskýrir Agnar, „þá nema skuldir ríkissjóðs í dag aðeins um átta prósent af vergri landsframleiðslu.“
Þá segir hann að horfur á minni lánsfjárþörf ríkisins á næsta ári en áður var talið muni vitaskuld leggjast vel í skuldabréfamarkaðinn en hann tók nokkuð vel í fjárlagafrumvarpið og lækkaði ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa á lengri endanum, þ.e. til sjö og tíu ára, nokkuð í viðskiptum í gær.
Lítið minnst á hagræðingu og forgangsröðun
Bætta skuldastöðu ríkissjóðs má einkum þakka kröftugri efnahagsbata, að því er fram kemur í fjárlagafrumvarpinu, en sömuleiðis sölu á 35 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka fyrir rúmlega 55 milljarða. Stefnt er að því að selja eftirstandandi 65 prósenta hlut ríkissjóðs, sem er í dag metinn á meira en 160 milljarða, að fullu á árunum 2022 og 2023 ef markaðsaðstæður verða taldar ákjósanlegar.
Aðspurður segir Agnar jákvætt að sjá sölu á bankanum halda áfram af fullum krafti. „Við erum tvímælalaust að fara sjá aukna samkeppni á þessum markaði sem verður almenningi til hagsbóta,“ en bætir hins vegar við:
„Að sama skapi saknar maður þess í fjárlagafrumvarpinu að lítið sé talað um hagræðingu og forgangsröðun í ríkisrekstrinum og útvistun verkefna til einkaaðila.“
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.