Stýrivextir eru nú tvö prósent eftir að Seðlabankinn tilkynnti um 0,5 prósentustiga hækkun þann 17. nóvember síðastliðinn.
Stýrivextir hafa hækkað nokkuð bratt undanfarna mánuði en í mars voru þeir sögulega lágir, 0,75 prósent.
Í fundargerð peningastefnunefndar sem birt var í gær kemur fram að að nefndarmenn hafi allir verið sammála tillögu Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra og formanns nefndarinnar, um að hækka stýrivexti um 0,5 prósent.
Ekki alltaf samstíga
Nefndin hefur ekki alltaf verið samstíga að undanförnu. Í síðustu tveimur stýrivaxtaákvörðunum á á undan þeirri síðustu vildu Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, og Gylfi Zoëga, prófessor og utanaðkomandi nefndarmaður hækka stýrivexti meira en seðlabankastjóri lagði til.
Í bæði skiptin lagði seðlabankastjóri til 0,25 prósentustiga hækkun en Gunnar og Gylfi vildu 0,5 prósentustiga hækkun.
Þeir voru þó sammála öðrum nefndarmönnum í þetta skiptið nú þegar lögð var fram tillaga um 0,5 prósentustiga hækkun.
Rætt um hækkun á bilinu 0,25-0,75 prósentustig
Í fundargerðinni kemur fram að allir nefndarmenn hafi verið þeirrar skoðunar að hækka þyrfti stýrivextina. Rætt var um hækkun á bilinu 0,25-0,75 prósentustig.
Helstu rök sem komu fram fyrir því að taka minna skref voru þau að áhrif vaxtahækkana á greiðslubyrði heimila væru líklega meiri nú en áður fyrr í ljósi hærri hlutdeildar óverðtryggðra lána á breytilegum vöxtum og því væri betra að taka áfram varfærin skref.
Einnig ætti eftir að koma í ljós hver áhrifin yrðu af samspili vaxtahækkana og nýlegrar beitingar þjóðhagsvarúðartækja.

Jafnframt var bent á að þegar dregið yrði úr stuðningsaðgerðum stjórnvalda gæti atvinnuleysi aukist á ný. Í ljósi þessa komu fram áhyggjurum að efnahagsbatinn gæti orðið brothættur.
Verðbólgan hafi verið þrálátari
Helstu rök sem fram komu fyrir því að taka stærra skref voru þau að verðbólga hefði verið þrálátari og verðbólguhorfur versnað á sama tíma og langtímaverðbólguvæntingar hefðu hækkað á suma mælikvarða. Einnig væri kröftugur bati á vinnumarkaði, atvinnuleysi hefði minnkað og útlit væri fyrir meiri hækkun launakostnaðar á næstu misserum en áður var gert ráð fyrir.
Fram kom í umræðu á fundinum að hætta væri á að aukin innflutt verðbólga myndi jafnframt leiða til aukinnar innlendrar verðbólgu svo sem frekari hækkunar á verði þjónustu. Mikilvægt væri því að stíga fast til jarðar til þess að lágmarka hættuna á að verðbólga yrði enn þrálátari og kjölfesta verðbólguvæntinga við markmið veiktist.
Með hliðsjón af þeirru umræðu sem fór fram á fundinum lagði seðlabankastjóri til að vextir bankans yrðu hækkaðir um 0,5 prósentur. Allir nefndarmenn studdu tillögu seðlabankastjóra.