DR segir frá því að dómurinn hafi verið kynntur í hádeginu og að 25 af 26 dómurum hafi fundið hana seka. Fimmtán dómarar voru á því að dómurinn skyldi vera óskilorðsbundinn.
Ríkisréttur hefur starfað og verið með málið til meðferðar síðan í september. Støjberg var innflytjendamálaráðherra Danmerkur á árunum 2015 til 2019.
Rúmur meirihluti danskra þingmanna samþykkti fyrr á árinu að ákæra Støjberg fyrir brot í embætti eftir að tveir óháðir lögfræðingar komust að þeirri niðurstöðu að tilefni væri til þess. Félagar hennar í þingflokki Venstre samþykktu ákæruna og sagði hún af sér sem varaformaður og sagði skilið við flokkinn í kjölfarið.
Støjberg var talin hafa gefið út ólögmæt fyrirmæli um að láta aðskilja gifta hælisleitendur sem væru yngri en átján ára við komuna til Danmerkur. Tuttugu og þrjú pör voru aðskilin að skipan ráðherrans árið 2016 og voru sum þeirra voru með börn.
Rannsóknarnefnd danska þingsins komst meðal annars að þeirri niðurstöðu að starfslið Støjberg hefði varað hana við því að tilmæli hennar væru ólögleg. Hún var talin hafa hunsað lög og brotið mannréttindi fólksins.
Sjálf hélt hún því fram að með tilmælunum reyndi hún að verja stúlkur og berjast gegn því að stúlkur undir lögaldri væru giftar