Í eitt skiptið var um að ræða einstakling í annarlegu ástandi sem öryggisverðir höfðu haft afskipti af. Hafði viðkomandi stungið af frá ógreiddum reikningi og sýndi af sér ógnandi hegðun. Var hann fluttur í fangageymslu.
Í annað skipti var óskað aðstoðar í verslun vegna einstaklings sem neitaði að bera sóttvarnagrímu. Þá barst lögreglu tilkynning um tvo einstaklinga sem höfðu stolið úr verslun í miðborginni en verðmæti varningsins var metið á um 300 þúsund krónur.
Lögregla fór einnig á vettvang þegar tilkynnt var um einstakling í annarlegu ástandi sem var að hringja dyrabjöllum í fjölbýlishúsi. Hann var hins vegar á brott þegar komið var að.
Þá bárust tilkynningar vegna nokkurra umferðaróhappa. Í eitt skiptið höfðu þrjár bifreiðar lent saman og þurfti að flytja tvær þeirra burtu með kranabifreið. Meiðsl voru minniháttar.