Síðast sást til Almars á aðfaranótt sunnudag, milli klukkan tvö og þrjú um nóttina. Sást hann þá í Hafnarfirði og er hann talinn geta verið á gráum Chevrolet Spark bílaleigubíl með bílnúmerinu HUX90. Bíllinn er ófundinn.
Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir ekkert bóla á Almari eða bílnum.
„Vísbendingaleysið er með þeim hætti að við urðum að horfa á Suðvesturhornið, Suðurnesin, austur fyrir fjall og Reykjavík til að byrja með,“ segir Skúli. Á stöðufundi eftir hádegið hafi um hundrað björgunarsveitarmenn verið komnir með verkefni, að fara ýmsa slóða á leitarsvæðinu.
„Svo eru fleiri að koma á eftir og verða fram á kvöld,“ segir Skúli.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var notuð við leitina í dag á meðan bjart var og þá hefur verið notast við dróna við leitina.
Þá hafa vinir og kunningjar Almars stofnað Facebook-síðu þar sem fylgst er með gangi mála við leitina.