Handbolti

„Höfum áður farið í gegnum mjög erfiða riðla“

Sindri Sverrisson skrifar
Guðmundur Guðmundsson tilkynnti EM-hóp sinn á blaðamannafundi í dag, með framkvæmdastjóra og formann HSÍ sér til fulltingis.
Guðmundur Guðmundsson tilkynnti EM-hóp sinn á blaðamannafundi í dag, með framkvæmdastjóra og formann HSÍ sér til fulltingis. vísir/sigurjón

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari í handbolta segir ljóst að fyrsti leikur á EM, gegn liðinu sem Íslendingar hafa kynnst svo vel á síðustu misserum, sé algjör lykilleikur upp á möguleikann á að komast áfram í milliriðla.

Ísland hefur keppni á EM gegn Portúgal 14. janúar, leikur svo gegn Hollandi 16. janúar og heimamönnum í Ungverjalandi 18. janúar. Tvö efstu liðin í riðlinum komast svo áfram í milliriðla.

Ísland tapaði gegn Portúgal á HM í Egyptalandi fyrir tæpu ári síðan og mikið liggur við að sagan endurtaki sig ekki í Búdapest 14. janúar:

„Sá leikur er gríðarlega mikilvægur. Portúgal er erfiður andstæðingur. Við vitum það mjög vel“ sagði Guðmundur í viðtali við Guðjón Guðmundsson eftir að hafa tilkynnt val sitt á EM-hópnum.

„Við höfum spilað marga leiki við þá [Portúgala] núna á tiltölulega skömmum tíma; tvo leiki í undankeppni EM fyrir ári síðan, svo á HM í Egyptalandi, og svo núna. Við þekkjum þá því vel. Þeir eru vel samhæfðir og stór hluti þeirra spilar í sama félagsliðinu. En það eru allir möguleikar opnir fyrir okkur. Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur eins og allir leikirnir í svona riðli,“ sagði Guðmundur í viðtali við Guðjón Guðmundsson eftir að hafa tilkynnt val sitt á EM-hópnum.

Klippa: Guðmundur um möguleika Íslands á EM

Guðmundur minnti á að Ísland hefði ekki fengið auðvelt verkefni á síðasta Evrópumóti en samt komist áfram, meðal annars með því að vinna Danmörku:

„Við fórum í gegnum riðilinn á EM í Svíþjóð 2020. Það var svo sem ekki árennilegt að mörgu leyti. Danir í fyrsta leik, síðan komu Rússar og svo Ungverjar. Þannig að við höfum áður farið í gegnum mjög erfiða riðla og nú þurfum við að sjá hvernig þetta fer.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×