Haraldur seldi hönnunarfyrirtæki sitt til Twitter í byrjun þessa árs fyrir háar fjárhæðir. Í færslu á samfélagsmiðlinum óskar hann eftir því að fjölskyldur sem búi nú við kröpp kjör hafi samband og sendi sér kennitölu og reikningsnúmer.
Jólin eru fallegur tími. En þau geta líka verið erfið fyrir mörg okkar.
— Halli (@iamharaldur) December 23, 2021
Sérstaklega fyrir barnafólk með lítið á milli handanna. Við viljum öll gleðja börnin okkar á þessum tíma.
Ef þú ert í þessum hópi, sendu mér endilega DM hérna með kennitölu og reiknnr.
Gleðileg jól.
Mikla athygli vakti þegar Haraldur greindi frá því að hann hafi flutt lögheimili sitt til Íslands áður en gengið var frá sölunni í þeim tilgangi að greiða skatta af henni hér á landi. Fram að því hafði Haraldur verið búsettur í Bandaríkjunum ásamt fjölskyldu sinni til fjölda ára.
Hann komst aftur í fréttir í júlí þegar hann bauðst til þess að greiða miskabætur sem tónlistarmaðurinn Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó Veðurguð, hafði krafið einstaklinga vegna meintra ærumeiðinga sem tengdust ásökunum um kynferðisbrot. Þá vildi hann einnig greiða lögfræðikostnað þeirra.
Haraldur var hvatamaður að átakinu Römpum upp Reykjavík sem er ætlað að bæta aðgengismál í miðborg Reykjavíkur. Sjálfur lagði hann fé inn í verkefnið og hafa yfir hundrað rampar fyrir hjólastóla verði settir upp frá því að átakið hófst í vor. Næst stendur til að hefja uppbyggingu rampa í fleiri sveitarfélögum um allt land.