Innlent

Hand­tekinn vopnaður byssu og sveðju

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um mann vopnaðan sveðju og byssu í Höfðanum í Reykjavík fyrr í dag. Aðilinn var handtekinn nokkru síðar og færður í fangaklefa.

Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að málið sé á frumstigi og enn í rannsókn. Sérsveitin tók þátt í aðgerðunum ásamt tæknideild lögreglunnar. Engum varð meint af: „Það á eftir að yfirheyra og fleira í þessu. Málið er til rannsóknar og málatilbúnaður er ekki ljós að svo stöddu,“ segir Elín Agnes.

„Þetta snýst náttúrulega ekki um það að einhver hafi verið úti að ganga með sveðju og byssu. Það er í flestum tilfellum eitthvað sem býr að baki,“ bætir hún við. Ekki er talið að almenningur hafi verið í hættu.

Þá var tilkynnt um mann sem var með læti í heimahúsi í Breiðholti. Hann var handtekinn á vettvangi og færður í fangaklefa. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar sem uppfærð var klukkan fimm síðdegis í dag.

Lögreglu barst tilkynning um slagsmál í heimahúsi í Hlíðunum. Einn var handtekinn og vistaður í fangaklefa. Í miðborginni var einnig tilkynnt um slagsmál í heimahúsi en málið var afgreitt á vettvangi.

Þá var tilkynnt um þjófnað úr verslun á umráðasvæði lögreglustöðvar 1, en umdæmið sér um Vesturbæ, Miðborg, Hlíðar, Laugardal og Háaleiti. Viðkomandi var handtekinn á vettvangi og færður í fangageymslu vegna ástands.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×