Skoðun

Er öryggi kennara og nem­enda minna virði?

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir skrifar

Grunnskólar eiga að vera einn öruggasti staður til að vera á og því eru kennarar furðu lostnir yfir einarðri afstöðu mennta- og barnamálaráðherra ríkisstjórnar Íslands um að hunsa með öllu tilmæli sóttvarnarlæknis um skólabyrjun á nýju ári. Með öryggi nemenda og kennara í hug hefur sóttvarnarlæknir lagt til að skólastarf í grunnskólum hefjist ekki fyrr en 10. janúar nk., en ráðherra tilkynnti opinberlega, án samráðs við kennara, að kennsla hæfist samkvæmt óbreyttu skipulagi. Þegar litið er er yfir sviðið og horft á þá nöturlegu staðreynd að smit hafa aldrei verið fleiri en einmitt nú, enn ein bylgjan er að ná hámarki og nemendur og kennarar líklega aldrei verið jafn varnarlausir fyrir smitum, ákveður ráðherra skyndilega að gera ekki það sem ætíð hefur verið gert í þessum skæða faraldri; að fylgja ráðleggingum sóttvarnarlæknis.

Á fundi formanns Félags grunnskólakennara með menntamálaráðherra í gær, var ráðherra gert það alveg ljóst að grunnskólakennarar eru afar ósáttir við þessa ákvörðun og er í raun hægt að tala um vatnaskil þegar ráðherra ákveður, þvert á ráðleggingar okkar færustu sérfræðinga og vísindamanna, að hefja skólastarf svona snemma á jafn viðkvæmum tíma og nú. Þeirri afstöðu var skýrt komið á framfæri við ráðherra. Rökstuðningur ráðherra um að opnir grunnskólar væru lykilatriði fyrir íslenskt samfélag mætir að sjálfsögðu skilningi kennara, enda vita þeir sem er að mikilvægi kennara og kennslu skipta sköpum. Rökin sem lögð eru fram mega þó ekki draga úr trúverðuleika og trausti sem samfélagið hefur haft til þeirra aðgerða sem þarf að grípa til vegna sóttvarnar aðgerða stjórnvalda, þrátt fyrir að þær séu oft bæði íþyngjandi og erfiðar. Mikilvægt er að ekki komi til gliðnunar í samskiptum almennings og yfirvalda.

Félag grunnskólakennara hefur sýnt ríkan samstarfsvilja við yfirvöld en harmar þann skort á samráði sem hér er á ferðinni og bendir á að sú ákvörðun ráðherra að fresta ekki skólastarfi, er alfarið á hans ábyrgð og ríkisstjórnarinnar. Yfirlýstur vilji ráðherra til samráðs við grunnskólakennara á næstu dögum og vikum til að átta sig á stöðu kennara í faraldrinum – og raunar um önnur hagsmunamál – er lofsverður, en í ljós verður að koma hvort þetta er aðeins í orði en ekki á borði.

Höfundur er formaður Félags grunnskólakennara.




Skoðun

Sjá meira


×