Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við fréttastofu að lögregla bíði enn eftir ýmsum gögnum sem óskað hafi verið eftir. Það hafi ef til vill dregið rannsóknina á langinn að kalla hafi þurft eftir nýjum og fleiri upplýsingum.
„Að því loknu munu gögnin vera metin og í framhaldinu send til ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til frekari meðferðar. Ég get hins vegar ekki sagt til um hversu langan tíma tekur að fá þessi gögn afhent og meta þau,“ segir Margeir.
Lögregla sendi frá sér tilkynningu í lok ágúst að talið væri að andlát sjúklingsins hafi borið að með saknæmum hætti, en heimildir fréttastofu herma að sjúklingurinn, kona á sextugsaldri, hafi kafnað í matmálstíma.
Hjúkrunarfræðingurinn var látinn laus úr haldi lögreglu eftir að Landsréttur felldi úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur.