Skoðun

Eiga konur að fá lægri laun?

Sandra B. Franks skrifar

Ein mesta kvennastétt í landinu, og jafnframt ein sú mikilvægasta, eru sjúkraliðar. Um 98% sjúkraliða á Íslandi eru konur. Óumdeilt er það mikilvægi sem sjúkraliðar gegna hjá heilbrigðisstofnunum um allt land. Heilbrigðisþjónustan getur ekki verið án sjúkraliða og hefur það sést vel á tímum Covid-faraldursins. Þrátt fyrir það glíma sjúkraliðar við kerfisbundna mismun þegar kemur að launum. Kynbundnin launamunur milli starfa sem konur helst vinna og starfa sem karlar vinna er með öllu óásættanlegur.

Sjúkraliðar bera skarðan hlut

Ljóst er að talsverður árangur hefur náðst í að vinna gegn kynbundnum launamun milli sambærilegra starfa. Hins vegar eigum við talsvert lengra í land þegar kemur að kynbundnum launamun sem birtist í kynjaskiptum vinnumarkaði. Rannsóknir sýna að laun eru almennt lægri hjá þeim starfsstéttum þar sem konur eru í meirihluta. Sjúkraliðar bera því mjög skarðan hlut af þessari mismunun. Slíkt er óþolandi óréttlæti og ber stjórnvöldum og stofnunum þess að bregðast við því, bæði þegar kemur að kjarasamningum en einnig stofnanasamningum.

Sérstakur starfshópur stjórnvalda og BSRB um endurmat á störfum kvenna hefur lagt til að stofnaður verði aðgerðahópur um launajafnrétti. Þá er lagt til að ráðist verði í greiningu á vandanum ásamt aðgerðum sem miða við að aðstoða atvinnurekendur við að uppfylla lagaskilyrði um jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf. Hins vegar er ljóst að vandinn krefst markvissra aðgerða.

Ólíkt virðismat starfa

Sjúkraliðafélag Íslands hefur ályktað um að gripið verði tafarlaust til aðgerða sem miða að því að verðmæti starfa sé metið að jöfnu hvort heldur sem konur eða karlar sinni þeim.

Það er ekki nóg að tryggja sömu laun kynjanna fyrir sömu vinnu. Því hin hliðin á teningnum er að störf sem eru að langstærstum hluta unnin af konum eru launalægri en störf sem eru unnin að langstærstum hluta af körlum. Það sem ýtir undir þetta ólíka virðismat starfa er að konur frekar en karlar vinna í nánum samskiptum við annað fólk sem skapar óáþreifanleg verðmæti fyrir samfélagið. Hefðbundin störf sem karlar helst vinna fela hins vegar í sér sköpun á áþreifanlegum verðmætum.

Það er því tómt mál að tala um launajafnrétti kynjanna á meðan störf sem eru unnin af 98% konum eru metin lægri en önnur hefðbundin störf sem karlar vinna.

Þetta er eitt stærsta mál jafnréttisbaráttu dagsins í dag.

Höfundur er formaður Sjúkraliðafélags Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×