Innherji

Húsnæðismálin munu skipta sköpum inn í kjaraviðræðurnar að sögn forseta ASÍ

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Drífa Snædal er forseti ASÍ.
Drífa Snædal er forseti ASÍ.

Drífa Snædal forseti Alþýðusambandsins segir vinnu standa yfir að kanna hug og stöðu félaga sinna til komandi kjaraviðræðna.

„Við undirbyggjum þekkingu á stöðu launafólks með könnunum Vörðu – rannsóknarmiðstöðvar vinnumarkaðarins," segir Drífa. 

Hún segir ljóst að heimsfaraldurinn hafi breytt stöðu launafólks. „Fyrstu niðurstöður könnunarinnar benda til þess að ákveðnir hópar hafa það töluvert verr en fyrir ári síðan, andleg og líkamleg heilsa fer hrakandi og sömuleiðis möguleikar til að mæta óvæntum áföllum," segir Drífa.

„Þá er alveg ljóst að húsnæðismálin, bæði á leigumarkaði og eignamarkaði verða fyrirferðamikil og höfum við þrýst á stjórnvöld að hefja strax vinnu við að bæta þar úr. Hvernig til tekst í þeirri vinnu mun skipta sköpum inn í kjaraviðræðurnar."

Samningsumboðið liggur hjá hverju aðildarfélagi innan ASÍ fyrir sig. Drífa segir umboð hvorki hafa verið framseld til einstaka landssambanda eða Alþýðusambandsins á þessum tíma. „Enda ekki verið kallað eftir slíku."

Innherji hefur undanfarið og mun áfram birta stutt viðtöl við forsvarsmenn verkalýðsfélaga og atvinnurekenda þar sem fjallað verður almennt um kjarasamningsviðræður sem framundan eru. 


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×