Þetta kemur fram í bréfi sem umboðsmaður sendi til menntamálaráðuneytisins vegna tilhögun náms, á meðan sóttkví eða einangrun stendur, þannig að réttur barna til menntunar verði sem best tryggður.
Embættið hefur fengið töluvert af ábendingum og fyrirspurnum um rétt þeirra barna sem sæta sóttkví eða einangrun. Ábendingarnar snúa fyrst og fremst að tilhögun náms á þeim tímum.
Full ástæða til að hafa áhyggjur
„Fólk hefur verið að velta fyrir sér aðgengi að námsgögnum og að geta fylgst með náminu á meðan börn eru í sóttkví. Sum þeirra hafa verið í sóttkví margoft, og einangrun. Við höfum verið að benda ráðuneytinu, sem er núna með sérstakt vöktunarteymi sem tengist sóttvarnaaðgerðum, á að það sé mikilvægt að það komi leiðbeiningar til skóla og kennara, þannig að öll börn sitji við sama borð,“ sagði Salvör Nordal, umboðsmaður barna, í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Hún bætti við að aðstæður í skólum víða um landið væru nú verulega krefjandi. Því væri mikilvægt að skólastjórnendur og kennarar fengju skýrar leiðbeiningar frá ráðuneytinu, þannig að öllum börnum væri tryggð góð menntun við jafn krefjandi aðstæður og nú eru uppi.
Salvör sagði þá fulla ástæðu til þess að hafa áhyggjur af því að börn sem ítrekað þyrftu að sæta sóttkví, eða færu í einangrun, myndu dragast aftur úr.
![](https://www.visir.is/i/26CFECA47E53493F751940DB809D28AC6135D64E500D6631D55757A1AF0E7516_390x0.jpg)
„Það er búin að vera mikil röskun á skólastarfinu þessi tvö ár og fjölmörg börn hafa verið í sóttkví, jafnvel endurtekið, eða með fjarvistir frá námi lengi vegna kannski aðstæðna á heimili og svo framvegis. Það er mikil ástæða til að hafa áhyggjur. Þau hafa sjálf áhyggjur af þessu, við höfum heyrt það. Þannig að við þurfum núna virkilega að taka utan um börnin í þessum faraldri, sem eru búin að standa með okkur og leggja mjög mikið af mörkum í tvö ár. Við þurfum að taka utan um þeirra vinnustað, skólana, kennara, skólastjórnendur, til að tryggja það að börn geti virkilega náð upp aftur, þau sem hafa mögulega dregist aftur úr,“ sagði Salvör.