Handbolti

Enn versnar martraðarástandið hjá Alfreð og þýska landsliðinu

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Gíslason hefur stýrt Þýskalandi til sigurs í öllum þremur leikjum liðsins til þessa á EM en liðið hefur lent í miklum hremmingum vegna kórónuveirusmita.
Alfreð Gíslason hefur stýrt Þýskalandi til sigurs í öllum þremur leikjum liðsins til þessa á EM en liðið hefur lent í miklum hremmingum vegna kórónuveirusmita. EPA-EFE/MARTIN DIVISEK

Hvorki fleiri né færri en tólf leikmenn úr þýska landsliðinu í handbolta hafa nú greinst með kórónuveirusmit á Evrópumótinu í Slóvakíu og Ungverjalandi.

Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þýskalands, var búinn að kalla inn fimm nýja leikmenn vegna sjö smita í þýska hópnum, sem fjölgaði svo í níu.

Nú rétt áðan greindi svo Sky í Þýskalandi frá því að þrír leikmenn til viðbótar hefðu greinst með kórónuveirusmit. Það eru þeir Christoph Steinert, Sebastian Heymann og Djibril M'Bengue.

Leikmennirnir sem þurft hafa að sæta einangrun vegna smita eru því orðnir tólf talsins og ekki einfalt fyrir Alfreð að ná hreinlega í lið.

Þrátt fyrir ástandið unnu Þjóðverjar öruggan sigur á Pólverjum í gærkvöld, 30-23, og tóku þar með tvö stig með sér í milliriðlakeppnina líkt og Íslendingar. 

Fyrsti leikur Þýskalands í milliriðlinum er stórleikur gegn Spánverjum annað kvöld í Bratislava.

Þýska handknattleikssambandið hefur staðfest að smitum hafi fjölgað en ætlar að bíða með nánari tilkynningu. Samkvæmt Sky tóku aðeins tólf af þeim sextán leikmönnum sem gátu spilað gegn Pólverjum í gær þátt í æfingu í Bratislava í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×