Fótbolti

FIFA takmarkar fjölda lánssamninga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gianni Infantino er forseti FIFA.
Gianni Infantino er forseti FIFA. Harold Cunningham/FIFA

Á næstu árum mun Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA takmarka þann fjölda leikmanna sem félög mega lána eða fá á láni frá félögum í öðrum löndum.

Frá og með 1. júlí næstkomandi mega lið aðeins vera með átta leikmenn á láni frá öðrum löndum. Að sama skapi má félagið aðeins lána átta leikmenn til annarra landa, sem er svokallaður alþjóðlegur lánssamningur [e. International loan deal].

Tímabilið 2023-2024 lækkar talan niður í sjö, og að lokum sex ári síðar.

Nýju reglurnar gilda þó ekki um lánssamninga innan sama lands, en FIFA hefur gefið hverju aðildarfélagi fyrir sig þrjú ár til að búa til regluverk í samræmi við það sem sambandið er að innleiða.

Talsmaður FIFA segir að reglubreytingin muni aðstoða félögin þar sem þetta gefi ungum leikmönnum tækifæri á að vaxa og dafna innan síns félags. Þá muni þetta einnig stuðla að samkeppnishæfni og koma í veg fyrir að félög hamstri leikmenn.

Þetta er þó ekki eina breytingin sem gerð verður á lánssamningum, en frá og með næsta tímabili má hvert félag ekki senda fleiri en þrjá leikmenn á láni til sama félagsins.

Þá þurfa lánssamningar að gilda í það minnsta frá einum félagsskiptaglugga til þess næsta, og mega í mesta lagi vera eitt ár.

Félögin þurfa að skila inn skriflegum samningi um skilmála lánssamningsins, þar sem fram kemur lengd og fjárhagsleg skilyrði samningsins.

Þessar nýju reglur eru hluti af því að endurbæta félagsskiptakerfið og áttu upphaflega að taka gildi í júlí árið 2020, en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins.

Leikmenn undir 21 árs aldri, sem og þeir sem hafa farið í gegnum yngri flokka félaganna, munu ekki teljast sem alþjóðlegur lánssamningur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×