Gatfield hefur meðal annars séð um að semja við þekkta listamenn á borð við Radiohead, Blur, Tinie Tempah, Deadmau5 og Swedish House Mafia. Þá er hann einnig þekktur fyrir að uppgötva tónlistarkonuna Amy Winehouse sem sló í gegn upp úr síðustu aldamótum.
OverTune vinnur að þróun samnefnds smáforrits sem er ætlað að gera hverjum sem er kleift að skapa tónlist og deila á samfélags- og samskiptamiðla, án þess að hafa tónlistarlegan bakgrunn eða kunna á hefðbundin tónsmíðaforrit.
Greint er frá þessu í tilkynningu en að sögn OverTune hentar forritið einkum vel til að skapa efni fyrir TikTok og Instagram Reels þar sem notendur tjá sig með hljóði og mynd. Hingað til hafa þessir miðlar ekki gefið notendum kost á því að skapa tónlistarlegt efni heldur notast við hljóð og tónlist eftir aðra.

Verkfæri fyrir nýja kynslóð tónlistarmanna
„Það gleður mig að fá að vera þátttakandi í verkefnum OverTune. Með því að einfalda sköpunarferlið, efla notendur og straumlínulaga dreifingu á samfélagsmiðlum hefur OverTune markað sér sess sem framtíð skapandi hugbúnaðar,“ segir Gatfield.
„OverTune er verkfæri fyrir nýja kynslóð tónlistarmanna og alla þá sem nýta tónlist í sinni listsköpun og samfélagsmiðlanotkun,“ bætir hann við.
„Innkoma Nick inn í teymið er vítamínsprauta fyrir OverTune og mun gefa okkur tækifæri á hraðari vexti á erlendum mörkuðum en við höfðum upphaflega áætlað,“ segir Jason Daði Guðjónsson, einn stofnenda OverTune, í tilkynningu.
„Við höfum verið að semja við hina ýmsu listamenn og fólk innan afþreyingariðnaðarins hér heima á Íslandi en það er augljóst að þessi bæting við hluthafa félagsins mun hafa mikil áhrif á þá verkferla á erlendum mörkuðum.“
Stefnt er að því að sérstök prufuútgáfa (e. beta) af OverTune verði gefin út fyrir iPhone-síma í febrúar og verður hægt að skrá sig á vef fyrirtækisins.

Tryggt sér 200 milljóna sprotafjármögnun
Dæmi um aðra þekkta hluthafa í félaginu má nefna englafjárfestinn Charles Huang sem er hvað þekktastur fyrir að hafa skapað tónlistartölvuleikinn Guitar Hero.
OverTune er stofnað af Sigurði Ásgeiri Árnasyni, Pétri Eggerz Péturssyni og Jason Daða Guðjónssyni. Stjórnarformaður fyrirtækisins er Guðjón Már Guðjónsson.
Fyrirtækið var stofnað seint á árinu 2020 í miðjum heimsfaraldri og hefur teymið náð að þróa fyrstu prufuútgáfu vörunnar á tiltölulega skömmum tíma. Að sögn stjórnenda þurfti fyrirtækið að leita langt út fyrir landsteinana að sérhæfðu starfsfólki á sviði hljóðtækniþróunar.
Tólf starfsmenn starfa nú hjá OverTune og er unnið að þróun hugbúnaðarins á Íslandi, Tyrklandi, Indlandi, í Hvíta Rússlandi og Bandaríkjunum.
Brunnur Ventures leiðir vaxtarfjármögnun fyrirtækisins, en að fjármögnuninni koma einnig íslenskir og erlendir englafjárfestar. Nýverið var greint frá því að OverTune hafi tryggt sér 200 milljóna króna sprotafjármögnun.
„Þróun vörunnar hefur gengið vonum framar, enda hefur okkur tekist að setja saman teymi með gífurlega sérþekkingu,“ segir Pétur Eggerz, vöru- og tæknistjóri og einn stofnenda.
„Við höfum unnið hörðum höndum að því að umbreyta tækni sem áður hefur eingöngu verið aðgengileg einstaklingum með mikla tækni- og tónlistarþekkingu, og móta hana svo hún nýtist öllum hópum við efnissköpun á samfélagsmiðlum.“