Pílu hefur verið leitað síðan 6. janúar, eftir að hafa fælst vegna flugelda. Leitin var umfangsmikil og íbúar í Bolungarvík, Hnífsdal og á Ísafirði lögðust á eitt við að finna hundinn og birtu allar mögulegar vísbendingar á Facebook síðunni Leit að Pílu.
Það dró síðan til tíðinda í gær þegar kajakræðari kom auga á hana – þar sem hún var lengst uppi í þverhníptu klettabelti í Bolungarvík. Um tuttugu björgunarsveitarmenn héldu upp á fjall og sóttu Pílu, þó ekki vandkvæðalaust, enda þurftu þeir að festa sig í línur og síga síðan niður með hundinn.
„Þetta var bara ótrúlegt. Samfélagið stóð algjörlega saman í gær og ég hef bara ekki kynnst öðru eins,” segir Margrét, sem er vonum ánægð með að fá Pílu sína í fangið. Síðustu vikur hafi hins vegar verið afar strembnar.

„Ég krassaði algjörlega á viku tvö. Ég var búin að leita svo mikið og með dóttur mína í eftirdragi og reyndi svo mikið að finna hana. Þetta tók mikið á mig,” segir Margrét og bætir við að veðrið hafi verið mjög óhagstætt til leitar.
Píla var búin að grafa sig ofan í fönn og þó ekki sé vitað hve lengi hún dvaldi þar telur Margrét það hafa orðið henni til lífs – þar hafi hún líklega náð að standa af sér veðrið.
Píla, sem er tíu ára Border Collie tík, braggast furðu vel að sögn Margrétar, þó hún sé heldur grönn.